Nokkrir leikir fóru fram í undankeppni HM í kvöld. Hér verður farið yfir helstu úrslit kvöldsins.
Portúgal heimsótti Lúxemborg í A-riðli. Portúgalir fóru með 3-1 sigur af hólmi þar sem Cristiano Ronaldo var á meðal markaskorara. Í hinum leik riðiðlsins unnu Serbar 2-1 útisigur á Azerbaijan. Þegar þrjár umferðir hafa verið spilaðar sitja Portúgalir á toppi riðilsins með 7 stig, sama stigafjölda og Serbar sem sitja í 2. sæti.
Í E-riðli unnu Belgar 8-0 stórsigur á Hvít-Rússum. Og Wales vann sterkan 1-0 sigur á Tékklandi, Daniel James, leikmaður Manchester United, skoraði sigurmark leiksins á 82. mínútu eftir stoðsendingu frá Gareth Bale. Belgar eru í efsta sæti riðilsins með 7 stig eftir þrjá leiki, Tékkar sitja í 2. sæti með 4 stig og Wales er í þriðja sæti með 3 stig en eiga einn leik til góða á liðin fyrir ofan sig.
Í G-riðli vann Holland 7-0 útisigur á Gíbraltar, Norðmenn unni 1-0 útisigur á Svartfjallalandi og Tyrkir töpuðu mikilvægum stigum með því að gera 3-3 jafntefli við Letta á heimavelli. Tyrkir sitja í efsta sæti riðilsins þegar leiknar hafa verið þrjár umferðir, liðið er með 7 stig, einu stigi meira en Holland sem vermir annað sæti riðilsins með sex stig, sama stigafjölda og Svartfjallaland og Noregur.
Í H-riðli vann Kýpur 1-0 sigur á Slóveníu, Króatía vann öruggan 3-0 sigur á Möltu og Slóvakía vann Rússland, 2-1. Króatía situr í efsta sæti riðilsins með 6 stig, sama stigafjölda og Rússland sem vermir annað sætið.