Aron Kristinn Jónasson eða „Geitin sjálf“ eins og hann kýs að láta kalla sig vakti athygli fyrr á árinu þegar hann lagði til að reist yrði stytta af rapparanum og tískuséníinu Kanye West við Vesturbæjarlaug. Hugmyndina sendi hann inn í hugmyndasamkeppnina Hverfið mitt sem Reykjavíkurborg stendur fyrir.
„Þetta myndi koma Vesturbæ í heimsfjölmiðla“
Hugmyndin var rökstudd á vefsíðu Hverfið mitt með þessum orðum: „Þetta myndi koma Vesturbæ í heimsfjölmiðla. Borgin gæti boðið hr. West og frú Kardashian West að vígja styttuna þegar hún verður reist. Það mun leiða til þess að aðdáendur þeirra geri sér ferð til að skoða styttuna og þ.a.l. verða til þess að þetta væri menningarlegt tákn Vesturbæjar og jafnvel Íslands. Friðarsúlan er dæmi um verkefni sem tengist popp menningu og hefur gengið gríðarlega vel og er þessi hugmynd ekki síðri en hún.“
Hugmyndin sló rækilega í gegn og var vinsælasta hugmynd keppninnar í ár. Fólk hafði miklar skoðanir á hugmyndinni og vakti hún einnig heimsathygli en erlendir miðlar fjölluðu einnig um verkefnið. Nú hefur Aron hins vegar fengið neitun frá nefnd sem að sér um að velja þær hugmyndir sem fara áfram á kjörseðil borgarbúa.
Ekki nægileg tenging milli Vesturbæjar og West
Aron greinir frá þessari neitun á Twitter-síðu sinni og birtir þar neitunartölvupóstinn sem hann fékk frá nefndinni. Í póstinum segir að: „Þegar listaverk eru reist í borgarlandinu er almennt haft að leiðarljósi að um höfundarverk listamanna sé að ræða og horft til þess að fleiri en einn listamaður hafi tækifæri til að koma hugmyndum sínum um útfærslu á framfæri. Eins og tillagan liggur fyrir hefur hún ekki listrænt gildi og er ekki sett fram sem listræn áskorun.“
Einnig kemur fram að tengsl Kanye West við Vesturbæ séu lítil sem engin og að nafnið West sé ekki nægileg tenging. Því er ekki ástæða til þess að styttan verði menningarlegt tákn Vesturbæjar og jafnvel Íslands.
Aron var alls ekki sáttur með þessi orð og segir textann frá Reykjavíkurborg vera uppspuna af verstu gerð.
„Fasisminn lifir og opna lýðræðið hefur brugðist.“
Kanye styttan verður ekki reist þrátt fyrir metkosningu 🚨
Fasisminn lifir og opna lýðræðið hefur brugðist. Þessi hugmynd fékk yfirburða mikið af atkvæðum. Meðfylgjandi texti er uppspuni af verstu gerð. pic.twitter.com/jmmVyOQCVb— aron kristinn (geitin sjálf) (@aronkristinn) March 30, 2021