Guðjón Þórðarson, fyrrum landsliðsþjálfari hefur ekki hug á því að útskýra orð sín frekar er varðar ummæli hans um ósætti Eiðs Smára Guðjohnsen og Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Gylfi Þór steig sjálfur fram í viðtali við okkur í gær og hafnaði þessu alfarið. „Ég kannast ekki við ósætti milli míns og Eiðs Smára, nema þá að Guðjón Þórðarson viti eitthvað meira en ég,“ sagði Gylfi Þór í einkaviðtali við 433.is í gær.
Lestu ítarlegt viðtal við Gylfa um málið hérna hérna
Guðjón hafði látið þessi ummæli eftir sér hafa í hlaðvarpsþættinum The Mike Show. „„Það sem ég er búinn að heyra í nokkra daga er að það sé ágreiningur eða núningur, þú getur kallað það hvað sem, á milli Gylfa og hugsanlegrar stöðunnar hjá Eiði Smára,“ sagði Guðjón í þættinum.
Enginn sem rætt hefur verið við innan vébanda landsliðsins kannast við þetta og virðist enginn átta sig á því hvað Guðjón á við.
Mannlíf.is leitaði viðbragða Guðjóns um málið en þar segir. „Í samtali við Mannlíf sagðist Guðjón Þórðarson ekki vilja tjá sig frekar um málið að svo búnu. Hann ætlar að svara þessu á öðrum vettvangi síðar þegar hann væri búinn að ráðfæra sig við þá sem nauðsyn krefur,“ segir í frétt á vef Mannlífs.
Arnar Þór Viðarsson þjálfari Íslands hafði þetta að segja við RÚV. „Það heyrðist nú bara á þessari umræðu og þessum vettvangi sem ummælin féllu. Þetta er fyrir neðan allar hellur og dæmir sig svolítið sjálft,“ segir Arnar. „Það er ekkert til í þessu.“