Gjörgæsludeildir sjúkrahúsa í 16 af 26 ríkjum landsins eru yfirfullar og neyðast sjúkrahúsin því til að vísa mjög veiku fólki frá.
Samtökin Læknar án landamæra segja að ástandið í Brasilíu sé svo slæmt að ekki sé langt í að heilbrigðiskerfi landsins hrynji saman. „Við höfum aldrei áður séð svona skelfilegt hrun heilbrigðiskerfis,“ sagði Ana de Lemos, framkvæmdastjóri hjá samtökunum, í samtali við New York Times.
CNN sýndi nýlega myndir af langri röð sjúkrabíla í Sao Paulo sem biðu eftir að komast með COVID-19 sjúklinga að móttöku sjúkrahúss.
Í gær bað heilbrigðisráðherra landsins Pfizer um að hraða afhendingu 50 milljóna skammta af bóluefni fyrirtækisins en Brasilía hefur pantað 100 milljónir skammta. Ráðherrann sagði að nauðsynlegt væri að hraða bólusetningum.