Marcel Sabitzer, fyrirliði þýska liðsins RB Leipzig, vill yfirgefa félagið að loknu yfirstandandi tímabili. Enska félagið Tottenham hefur áhuga á leikmanninum og er talið leiða kapphlaupið um að semja við hann.
Þýska blaðið BILD, greinir frá þessum tíðindum og segir miðjumanninn líða eins og hann sé kominn á endastöð með félaginu og hafi afrekað allt það sem hann geti með því á þessum tímapunkti.
Auk Tottenham er tallið að Manchester United, Arsenal og Liverpool, hafi öll augastað á leikmanninum.
Hinn 27 ára gamli Sabitzer, gekk til liðs við RB Leipzig árið 2014, þá var félagið í næst efstu deild Þýskalands og hefur hann haldið tryggð við félagið síðan þá. RB Leipzig er nú reglulegur þátttakandi í Evrópukeppnum félagsliða.
Sabitzer á að baki 219 leiki fyrir RB Leipzig og hefur skorað 50 mörk. Hann er miðjumaður sem er best lýst sem vinnuhest, hann hefur mikla hlaupagetu og lætur finna fyrir sér.