Adam Lallana telur erfiðleika Liverpool í deildinni á tímabilinu mega rekja til meiðslavandræða innan herbúða félagsins og fjarveru aðdáenda, en segir jafnframt að fyrrverandi liðsfélagar hans geti ekki notað það sem „afsökun.“
Lallana varði sex árum hjá þeim rauðklæddu og spilaði stóran þátt í fyrsta titilsigri þeirra í efstu deild í 30 ár áður en hann færði sig yfir til Brighton í sumar. Jurgen Klopp og félagar hafa átt erfitt uppdráttar á tímabilinu en liðið er í sjöunda sæti, 25 stigum á eftir Manchester City á toppi deildarinnar.
Liverpool er einnig án sigurs í átta leikjum í röð á Anfield en Lallana og félagar hans í Brighton unnu þar 1-0 sigur í febrúar.
Lallana rekur slæmt gengi þeirra til meiðslavandræða nokkurra leikmanna og fjarveru heimastuðningsins á Anfield. „Ég held að ástæðan fyrir þessu liggi í augum uppi,“ sagði Lallana í samtali við talkSPORT.
„Þetta er augljóslega undarlegt tímabil. Annað Covid tímabil. Án aðdáenda og það vita allir hversu mikil áhrif heimastuðningurinn á Anfield hefur á liðið. Meiðslin sem þeir hafa þurft að glíma við. Það er ekki hægt að líta fram hjá því.“
„Það er ekki afsökun. Ég þekki marga leikmennina, og ég tala enn við þá í dag, og þeir munu ekki nota þetta sem afsökun, en ég held þetta sé ástæðan fyrir því að það hefur gengið erfiðlega hjá þeim á tímabilinu.“
Klopp hefur þurft að eiga við meiðsli nokkurra lykilmanna í liðinu, þá sérstaklega í vörninni. Varnarmennirnir Virgil van Dijk og Joe Gomez meiddust í október og nóvember sem batt enda á spilamennsku þeirra á tímabilinu, áður en að Joel Matip meiddist í febrúar en hann verður einnig frá út tímabilið.
Fabinho og Jordan Henderson hafa því þurft að spila í öftustu línu sem hefur valdið ójafnvægi á miðjunni.
Henderson er nú meiddur sjálfur en Diogo Jota er nýkominn aftur eftir langan tíma á hliðarlínunni vegna hnémeiðsla.
Þeir rauðklæddu voru enn í titilbaráttu fram í lok janúar en eru nú að keppa um sæti í meistaradeildinni á næsta tímabili. Lallana er viss um að fyrrverandi liðsfélagar sínir nái sér aftur á strik á næsta tímabili og telur þá enn geta endað í meistaradeildarsætunum á þessu tímabili.
„Ég er sannfærður um að þeir nái sér aftur á strik á næsta tímabili þegar að nokkrir leikmenn hafa náð sér og fleiri aðdáendum verður hleypt aftur inn,“ sagði hann.
„Það er enn um nóg að keppa á tímabilinu. Ég er nokkuð viss um að þeir nái að enda tímabilið í fjórum efstu sætunum, klárlega.“