Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og sérfræðingur á Sky Sports, finnst leiðinlegt að enskir knattspyrnumenn skuli ekki sjálfir sjá um samfélagsmiðla sína. Hann benti á þetta eftir að margir leikmenn enska landsliðsins birtu mjög svipaðar færslur á Twitter eftir sigur á Albönum.
Englendingar unnu leikinn 0-2 með mörkum frá Harry Kane og Mason Mount. Þessi góðu úrslit og sterk byrjun þeirra ensku í undanriðli sínum fyrir HM í Katar var þó ekki það sem var Neville efst á baugi í gær. Það voru skrif leikmanna á Twitter.
,,Sjá einhverjir um færslurnar sínar sjálfir? Þeir hljóma ekki einlægir. Það er synd að þeir rækti ekki persónuleg tengsl sín við stuðningsmennina,“ skrifaði Neville á Twitter.
,,Annað hvort áttu að vera á samfélagsmiðlum sjálfur með þínar eigin skoðanir eða sleppa því yfirhöfuð.“