Skipið hefur setið fast síðan á þriðjudaginn og lokað fyrir alla umferð um þessa mikilvægu flutningsleið.
„Við erum ekki enn búin en það hefur losnað aðeins,“ sagði Osman Rabie, talsmaður fyrirtækisins sem sér um rekstur Súesskurðarins í samtali við The Washington Post.
Skipið er um 400 metra langt og er með 18.000 gáma um borð, sem sagt fulllestað. Heildarþyngd þess er rúmlega 200.000 tonn.
Í gær voru 14 dráttarbátar á vettvangi við að reyna að losa skipið.
The Guardian segir að með því að ýta á skipið og draga það með dráttarbátunum í bland við stórstreymi og þess að mörg hundruð tonn af sandi voru fjarlægð hafi tekist að losa skipið aðeins.
Yfirvöld voru byrjuð að undirbúa sig undir að taka gáma úr skipinu til að létta það en ekki liggur fyrir hvort það verði nauðsynlegt í ljósi árangurs næturinnar. Tæplega 400 skip bíða þess að komast í gegnum skurðinn.