Kári Árnason var settur óvænt í byrjunarlið íslenska landsliðsins fyrir leikinn gegn Armeníu í dag eftir að Ragnar Sigurðsson, sem átti að byrja leikinn, meiddist í upphitun.
Kári segir að það hafi ekki verið erfitt að koma inn, menn verða alltaf að vera klárir.
„Svona óvæntir hlutir geta gerst og maður verður bara að vera tilbúinn þegar kallið kemur. Maður tæklar það bara,“ sagði Kári í samtali við RÚV.
Ísland tapaði leiknum óvænt, 2-0.
„Þetta var erfitt, við sköpum ekki nógu mikið af dauðafærum. Þetta eru mest fyrirgjafir sem við náum ekki að binda endahnútinn á, þetta var erfiður leikur og við vorum ekki sjálfum okkur líkir.“
Kári vildi ekki segja til um það hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir mörkin sem Ísland fékk á sig, það verði hins vegar að skoða.
„Erfitt að segja, ég ætla ekki að fara kenna neinum um þessi mörk. Við fáum á okkur mark sem lið og áfram gakk en auðvitað verðum við að skoða það ef eitthvað fór úrskeiðis.“
„Þetta er einn af þessum leikjum, erfiður útivöllur og ekki auðvelt að sækja einhvað hingað. Auðvitað ætlumst við til að gera betur og skapa fleiri færi,“ sagði Kári Árnason, varnarmaður íslenska landsliðsins í samtali við RÚV.
Kári tekur ekkert af leikmönnum Armeníu.
„Við unnum alveg nóg af fyrri boltum en það voru seinni boltarnir sem ollu veseni. Við vorum ekki nógu aðgangsharðir inn í teig, í hornum og svo framvegis. En Armenar gerðu vel, það verður ekki af þeim tekið, þeir börðust vel fyrir hverjum bolta og lögðu sig í þetta, fórnuðu sér í hvern einasta bolta,“ sagði Kári Árnason, varnarmaður íslenska landsliðsins í samtali við RÚV.