Rétt upp úr klukkan 9 var opnað aftur fyrir leið að gossvæðinu í Geldingadölum á Reykjanesi. Þetta kom fram í spjalli við Hjördísi Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarna.
Ennfremur hefur Lögreglan á Suðurnesjum birt tilkynningu um þetta á Facebook-síðu sinni:
„Ákveðið hefur verið að opna fyrir umferð um Suðurstrandarveginn og er verið að því í þessum töluðu orðum.
Við hvetjum og ítrekum fyrir þeim sem ætla að skoða gosið að vera vel klædd og vel skóuð. Veðrið er bjart og fallegt en þó er mjög kalt þarna uppfrá.
Eigið góðan dag og farið varlega.“
Veðurspá er nokkuð góð fyrir daginn en búast má við hægviðri og vægu frosti suðvestanlands.