fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fókus

Halla Vilhjálms um verðbréfabransann, barneignir og af hverju hún fer alltaf á fundi á háum hælum

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 28. mars 2021 10:00

Halla Vilhjálmsdóttir er afrekskona á hinum ýmsu sviðum. Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halla Vilhjálmsdóttir Koppel er ein af þessum manneskjum sem virðast hafa lengri sólarhring en við hin. Hún segist ekki þurfa að velja sér einn frama – það megi eiga fleiri en einn og tvo samhliða því að vera móðir og setja fjölskylduna í forgang. Halla og Harry, eiginmaður hennar, eiga þrjú börn á leikskólaaldri og hafa bæði skarað fram úr í breska bankaheiminum.

„Það mun ekki skaða frama minn að eignast börn eða vera frá vinnu,“ segir Halla sem býr í London ásamt eiginmanni sínum Harry, og þremur börnum, Louisu, fimm ára, Harry Þór, þriggja ára, og Anitu, eins árs.

Flestir Íslendingar kannast við Höllu fyrst og fremst sem söng- og leikkonu. Halla hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi, auglýsingum og leikhúsi, var þáttastjórnandi í fyrstu seríu af X-Factor á Íslandi og hefur tekið þátt í undankeppni Eurovision. Hún útskrifaðist frá einum virtasta leiklistarskóla Bretlands, Guildford School of Acting, árið 2004.

Halla er ótrúlega áhugaverð persóna sem er stöðugt í leit að áskorunum. Hvort sem það er að komast inn í einn mest krefjandi skóla heims eða ná fullum nætursvefni þá setur hún undir sig hausinn og nær markmiðum sínum.

Þetta getur alveg gengið upp

Fyrir sex árum starfaði Halla á daginn við leik- og söngverkefni og á kvöldin sinnti hún starfi sínu sem rekstraraðili líkamsræktar- og heilsulindar. Þau hjónin voru nýgift og hún hafði ákveðið að láta gamlan draum rætast og sækja um í Oxford-háskóla í MBA-nám. „Ég sagði manninum mínum á einu af okkar fyrstu stefnumótum að mig hefði alltaf langað í Oxford-háskóla og þegar hann spurði af hverju ég hefði ekki látið verða af því áttaði ég á mig á því að það væri ekkert því til fyrirstöðu. Ég sótti um og komst inn en varð svo skyndilega ólétt. Ég bjóst aldrei við því að verða ólétt svona fljótt,“ segir Halla sem stefndi á að flytja til Oxford.

„Ég hugsaði: Annað hvort verð ég að fresta öllum mínum plönum um eitt ár eða bara hjóla í þetta. Svo hugsaði ég bara: Þetta getur alveg gengið upp! Barnið kom níu mánuðum eftir brúðkaupið en ég hafði byrjaði í skólanum á mánudegi og eignast barnið á miðvikudegi og var svo mætt í skólann vikuna eftir. Ég bjó við hliðina á skólanum og hljóp þarna á milli,“ segir Halla sem er lausnamiðuð að eðlisfari.

Hún ræddi við móður sína Louisu og saman fundu þær lausn. Móðir hennar flutti í kjölfarið til Höllu sem þá var búsett í Oxford en eiginmaður Höllu starfaði í London. „Mamma vann hjá Iceland­air og þeir studdu hana í að vinna frá Oxford svo hún gæti flutt til mín og hjálpað mér með barnið sem ég svo auð­vitað skírði í höfuðið á henni. Þetta var eins og boðhlaup. Við mamma skiptumst á að vinna og sinna barninu. Við vorum svo gott „power couple“ og létum þetta ganga upp.“

Bugaðistu ekkert? Þetta hefur væntanlega verið mjög mikið álag?
„Jú, jú. Það var grátið einu sinni á önn. Þetta voru þrjár annir og ég grét þrisvar sem er kannski ekki mikið en ég græt yfirleitt ekki. Ég bjóst alveg við meiri tárum en eftir á að hyggja var þetta alveg galið.“

Þrautseigja Höllu vakti mikla athygli og var meðal annars fjallað um hina metn­aðargjörnu móður í Financial Times. „Ég hafði hringt í Ox­ford þegar ég komst að því að ég væri ólétt og sagt þeim frá því og spurt: Hvað segið þið um að ég geri þetta bara samt? Skólinn sagði að það væri al­veg undir mér komið.“

Brjóstapumpuherbergi og kælir

Halla segir skólann hafa sýnt henni mikinn stuðning og hafa spurt hana hvað hann gæti gert til að aðstoða hana. „Ég sagði bara ég veit það ekki. Ég hef aldrei eignast barn áður, við verðum að sjá hvernig þetta spilast. Ég var til dæmis komin með mikla brjóstabólgu og hita af því ég náði ekki að gefa barninu fulla gjöf á þeim 20 mínútum sem skólahléið var. Þá fékk ég leyfi til þess að mæta aðeins seinna.“

Í kjölfarið var svo útbúið sér­stakt brjóstagjafarherbergi með ísskáp þar sem Halla gat pumpað sig milli tíma og geymt mjólkina í sérstökum kæli. „Á tímabili fannst mér ég alltaf heyra í brjóstapumpunni og ég man eftir því að hafa komið til dyra með pumpuna á mér í gangi og úti stendur einhver ókunnugur maður. Ég skammaðist mín ekki. Mér var alveg sama. Ég var að láta hlutina ganga upp.“

Halla segir að þó þetta hafi tekið verulega á þá hafi þetta tekist og í kjölfarið sé aðstaðan breytt fyrir konur í sömu spor­um. „Allar konur sem komu á eftir mér ganga inn í skóla sem hefur gert þetta áður.“

Myndir þú mæla með þessu við einhverja manneskju?
„Ég er kannski aðeins öðru­vísi en annað fólk. Ég sagði sjálfri mér að ég myndi ekki gera þetta svona aftur en með annað barn fór ég aftur í mjög þungan kúrs með til­heyrandi prófum. Og núna með þriðja barn er ég að taka próf frá Cambridge í sjálfbærum fjármálum (e. Susta­inable Finance) og fjórða stig í CFA sem snýst að miklu leyti um umhverfisvænni og sjálf­bærari fjárfestingar. Ég er því að sérhæfa mig á því sviði. Ég veit ekki hvað þetta er en ég verð ólétt og fer strax að hugsa nám. Þetta er bara algjörlega galið.“

Hún segist þó ekki vera ofur­hetja – slíkt sé ekki til. Þetta sé mikil vinna og dugnaður í bland við heppnina sem fylgir því að fá tækifæri og eiga góða að. „Ég hef alveg keyrt mig í kaf. Þá skiptir öllu að eiga gott fólk að og rækta sambandið við það. Hvort sem það er blóð­skylt eða ekki. Fólkið mitt er öryggisnetið sem bendir mér á klettinn áður en ég geng fram af honum.“

Móðurhlutverkið og mótorhjól

England hefur farið illa út úr kórónaveirufaraldrinum og miklar takmarkanir hafa verið settar þar í landi. Skólum hefur ítrekað verið lokað og útgöngubann verið títt síðustu mánuði. Hvernig skyldi það fara með geðheilsuna að vera heima í fæðingarorlofi með þrjú börn og vera í námi?

„Það tekur á. Maðurinn minn hefur líka verið að vinna heima stundum 14 tíma vinnu­dag í mjög krefjandi starfi og er mikið á vídeó­fundum. Þá er stanslaust verið að sussa á krakkana og ekki hægt að kveikja á blandaranum því þá eru svo mikil læti. Þetta er ekkert hægt til lengdar og börnin upplifa það sem mikla höfnun þegar það er alltaf verið að sussa á þau. Ég ákvað því að koma heim í allavega mánuð svo hann fengi rými til að sinna sinni vinnu og ég og börnin gætum notið okkar hér.“

Að því sögðu hefur hún verið mikið með börnin heima og á löngum köflum hefur ekki ver­ið hægt að fara með börnin á róló þar sem ekki er ætlast til þess að fólk sé á ferli í London nema í nauðsynlegum erinda­gjörðum. „Mér finnst skipta miklu máli að skipuleggja vel og vera svo opin fyrir því að planið gangi ekki upp. Það er eina leiðin til að láta þetta ganga upp. Það þarf að vera sveigjan­leiki, þá líður öllum betur.“

Þrátt fyrir krefjandi ár sem einkennist af einangrun blómstrar Halla í móðurhlut­verkinu. Hún finnur á ein­hvern undraverðan hátt tíma til að sinna námi, skjótast stöku túr á mótorhjólinu sem hún elskar og stunda líkams­rækt heima með börnunum. Halla segir að mótorhjólum þeirra hjóna hafi þó verið ýtt til hliðar svo hægt væri að leggja bíl sem rúmar alla fjölskylduna.

„Við þurftum sjö manna bíl svo bílstólarnir þrír komist fyrir þannig að ég er komin á strumpastrætó. Ég reyndi að selja manninum mínum það að hann myndi skutla börnunum og ég keyrði við hliðina, á mótorhjólinu. Hann var fljótur að slá þá hug­mynd út af borðinu,“ segir hún glettin.

Er hann ekkert að stinga upp á því að þú seljir hjólið?
„Það er svo annað,“ segir hún og hlær. „Þá sting ég upp á því að við seljum hitt hjólið, sem er hans og lítið notað. Við tókum próf á svipuðum tíma en ég fer meira í hjólatúra og notaði það áður fyrr til og frá vinnu.“

Halla stundar líkamsrækt af kappi og er lítið fyrir formfestu. Mynd:Diddi

Tekur ekki sömu áhættu

Halla hefur alla tíð haft mikla þörf fyrir hreyfingu og stund­að líkamsrækt af kappi. Hlaup, skíði, jóga og fjallgöngur eru meðal þess sem hún hefur lagt stund á af sínum einstaka metnaði. Þannig hefur hún til dæmis klifið fjóra af sjö hæstu tindum heims. Nú er væntanlega lítill tími í fjallabrölt? „Það eru ákveðnir hlutir sem við maðurinn minn ákváðum að gera áður en við eignuðumst börn. Og við gerðum allt sem okkur datt í hug. Ég er sátt. Ég þarf til dæmis ekki að klífa hina þrjá tindana. Mér fyndist ég mjög sjálfhverf ef ég hefði ekki breytt neinu með þrjú lítil börn heima. Ég tek ekki sömu áhættu og áður.“

Hún segist líka ekki hafa neina umfram orku í augna­blikinu og það sé allt í lagi. „Svo þarf að hlusta á börnin. Þegar þú ert með mikið af litlu fólki þá þarftu að hlusta mikið.“

Halla hefur síðustu ár starfað hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs í mjög krefj­andi umhverfi þar sem algengt er að fólk vinni fram á kvöld alla daga. Hún segist lítið mega ræða umsóknarferlið eða vinnu sína í bankanum sökum trúnaðaryfirlýsinga sem hún þarf að heiðra fram á sinn síð­asta dag. Hún kinkar þó kolli þegar ég lýsi sjónvarpsþætt­inum The Industry sem fjallar um bresk ungmenni sem sækja um lærlingsstöðu hjá stórum fjárfestingarbanka í London.

„Ég hef reyndar ekki séð þann þátt en þetta umsóknarferli hljómar kunnuglega.“

Þeir sem komast að í starfs­nám í stóru fjárfestingar­bönkunum þurfa gjarnan að sitja 9­-10 viðtöl og leysa flókin reikningsverkefni til þess að komast áfram í næsta viðtal. Í raun mætti horfa á það þann­ig að kerfið sé sett upp með það fyrir augum að fólk fórni miklu af sínu einkalífi til þess að haldast í starfi. Halla sagði starfi sínu hjá bankanum lausu fyrir nokkrum mánuðum til þess að sinna börnunum.

„Í mínum bransa er ekki óeðlilegt að vera komin í vinnuna fyrir sjö og fara heim klukkan átta. Það kom tímabil þegar ég eignaðist fyrsta barn­ið mitt að ég sá hana í korter. Ég var farin til vinnu áður en hún vaknaði og hljóp eins hratt og ég gat heim úr lestinni til að ná að sjá hana í korter áður en hún færi að sofa. Ég kom heim sveitt, silkiblússan límd við bakið á mér, hljóp upp stig­ann því það var fljótara en að bíða eftir lestinni. Það tókst oft ekki og barnfóstran reyndi að hugga mig með því að hún hefði verið svo þreytt að hún hefði bara sofnað. Þetta var ömurlegt. Ég tók ákvörðun um að bjóða ekki upp á þetta.“

Halla segir að faraldurinn hafi opnað á ýmsar leiðir hvað sveigjanleika í starfi varðar og það sé mikilvægt fyrir fjöl­skyldur. „Það er ekkert sem staðfestir að 14 tíma dagur á skrifstofu sé best.“

Þekkir þú einhvern sem vinnur hálfan vinnudag?
„Nei, en ef ég vildi vinna hálfan vinnudag þá verð ég bara sú fyrsta. En það er allt í góðu. Ég er vön því að taka slaginn.“

Ertu ekkert hrædd um að það verði erfitt seinna meir að olnboga sig aftur inn í svo eftirsótta og krefjandi stöðu, komin með þrjú börn og mann sem vinnur einnig í sama geira?

„Nei. Málið er að það er erf­iðara að fá þetta starf sem ég var í heldur en að komast inn í Harvard. Það eru 0,2 prósenta líkur á því að þú fáir starfið ef þú sækir um. Þetta var mjög erfitt. Ég eyddi fimm árum þarna, er búin að gera þetta og læra fullt og þetta er á feril­skránni minni. Ég er í góðum málum.“

Hún segir að það þurfi ekki að skilgreina breytingar sem þessa sem pásu. Fólk sé alltaf að læra og stækka. „Þetta er ekki einu sinni pása. Í næsta skrefi, þá get ég sameinað í mitt starf allt sem ég hef verið að fókusera á núna og þá þekk­ingu sem ég hef bætt við mig, þannig að starfið verður enn áhugaverðara.“

Hefur þú meðvitað valið að vera í námi samhliða fæðingarorlofi til að það myndist ekki gat á ferilskránni þinni?
„Nei. Alls ekki. Ég er ekki hrædd við það. Ég get alveg ráðið ókunnuga manneskju inn á heimilið en ég hef bara núll áhuga á því. Það er ekki það sem hentar okkur núna. Nú ætla ég að vitna í merki­legan mann. „Velgengni er punktur á tímalínu, það er ekki varanlegt ástand,“ þetta sagði Will.I.Am,“ segir Halla og hlær og vísar í athafna­manninn og rapparann sem löngum hefur verið kenndur við hljómsveit sína Black Eyed Peas.

„Það eru ekki allir alltaf alveg með þetta. Þér þarf ekki alltaf að ganga ótrúlega vel. Stundum gengur ekki vel eða þú ert að einbeita þér að öðru en vinnunni. Þú ert þá að vaxa.“

Hún bendir á að fólk sé sí­fellt að læra og breytast og í því felist tækifæri. „Stór fyr­irtæki eru í meiri mæli að sjá mikilvægi þess að starfsfólk sé með fjölbreytta hugsun. Og þá dugar ekki að allir séu með svipaða menntun. Lærðu ýmislegt, fjölbreytt hugsun sprettur af því. Vissulega þarf maður að vinna mikið og eyða mikilli orku og tíma í nám en allt hitt skiptir líka máli. Þú getur alltaf nýtt alla þína reynslu, alveg sama hver hún er. Mæður eru til dæmis öðruvísi verðbréfamiðlarar en barnlausir karlmenn. Fjöl­breytnin er svo mikilvæg, ekki öll eggin í eina körfu.“

Halla Vilhjálmsdóttir, leikkona, söngkona og verðbréfamiðlari. Mynd: Sigtryggur Ari

Úreltur hugsunarháttur

Verðbréfaheimurinn er hraður og fyrir mörgum óskiljan­legur. Miklir fjármunir geta brunnið upp á örskömmum tíma og mistök þar geta verið dýrkeypt. Það hlýtur að vera ansi erfitt að ráðstafa miklum eignum og fjármunum og hvað þá þegar það gengur ekki upp og fólk tapar eða þú gerir mistök?

„Það sem kallast ábyrgar fjárfestingar eiga hug minn allan núna. Ábyrgar fjárfest­ingar eru fjárfestingaraðferð­ir sem taka mið af umhverfis­legum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (e. ESG) við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma. Þarna er komið mikið inn á siðfræði og félagsfræði. Stór hluti af því er líka að sporna við spill­ingu og hvernig fólk hugsar í fjármálum. Þessi skammtíma­hugsun um að græða mikið hratt er úrelt. Ef þú gerir hlut­ina út frá þinni bestu vitund, eins vel og þú getur fyrir þá sem þú starfar fyrir, þá líður þér ekki illa ef þú gerir mis­tök. Þú gerir alltaf það besta í stöðunni.“

Í tengslum við ábyrgar fjár­festingar er einnig talað um mikilvægi þess að fjárfesta í grænum skuldabréfum sem eru þá í fyrirtækjum þar sem horft er til umhverfisþátta með afgerandi hætti. Reynsl­an víða erlendis hefur sýnt að ávöxtun grænna skuldabréfa er ekki síðri en hefðbundinna. „Þú ert ekki að fá verri kjör ef þú kaupir grænt skuldabréf. Það hefur verið misskilningur að það sé kostnaðarsamara því kannanir hafa sýnt að fyrir­tæki sem skora hátt á þeim kvarða sem nýttur er til að meta hvort hægt sé að skil­greina hlutabréfin í þeim sem græn, eru talin líklegri til þess ganga vel.“

 

Öskrar í baði

Hjónin starfa sem áður segir bæði í fjárfestingarbankageir­anum. Halla segir þau þó vera hvort á sinni hillunni. Hún hafi starfað á „the trading floor“ þar sem verið er að selja og kaupa hlutabréf, skuldabréf og afleiður en Harry sé á hinni hliðinni og vinni með útgáfu skuldabréfa.

„Í fjárfestingarbönkum er kínverskur veggur sem að­skilur viðkvæmar upplýsing­ar og almennan markað. Mér finnst mjög áhugavert það sem Harry starfar við en í flestum tilfellum væri það lögbrot ef við ræddum okkar verkefni. Þetta eru líka það ólík störf að við getum ekki beint gefið hvort öðru ráð.“

Í þáttum á borð við hinn norska Exit og bandaríska Billions er verðbréfabransinn sýndur sem mjög hraður, agr­essífur, menn öskra í símann og virðast oft á barmi tauga­áfalls. Viðtalsferlið hjá mörgum bankanna er eitt og sér þol­raun fyrir taugarnar. Halla segir að þá komi leiklistin sterk inn.  „Ég er vön að vinna undir álagi og það er ekki auð­velt að slá mig út af laginu. Í þessu starfi er gerð sú krafa að þú sért pollróleg þegar allt fer til fjandans.“ Kemur þú svo heim í lok erfiðs dags og öskrar í lófann?„Það er meira svona kampa­vínsglas í baði og öskra ofan í vatnið. Annars nota ég list­ina mikið til þess að losa út og vinna úr tilfinningum. Ég er alltaf semjandi hvort sem það er tónlist eða að skrifa. Ef einhver gerir mig brjálaða þá beini ég því í gegnum listina. Skrifa einhvern súran karakt­er í leikverk og afgreiði hann þar.“

Að því sögðu þá dugar listin ekki ein og sér og þar kemur stærðfræðiástríðan inn, sem drífur Höllu áfram í sínum störfum í fjármálageiranum. „Ég hef alltaf verið rosa­legt stærðfræðinörd og hef til dæmi mikinn áhuga á af­leiðuviðskiptum því þau eru stærðfræðilega flókin. Pabbi var stærðfræði­ og eðlis­fræðikennari og er tónlistar­maður svo við erum mjög lík og vinnum vel saman. Ég geri líka mikið af tónlist með honum.“ Pabbi Höllu er Vilhjálmur Guðjónsson, gítar­, saxófón­ og píanóleikari, en hann spil­aði lengi vel í húsbandi RÚV í Eurovision­undankeppnum sem Halla tók einmitt eitt sinn þátt í og útilokar ekki að gera á ný. „Einn starfsframi útilokar ekki annan, þvert á móti. Ég er alltaf að semja tónlist líka.“

Tölfræðin og háir hælar

Talið berst að kynjamisrétti. Halla segir launamisrétti og ójafnvægi á vinnustað vera svipað í Bretlandi og hér­lendis. „Það er staðreynd að það er misrétti. Ég hef tekist á við það af hörku. Ég læt heyra í mér og stundum þýðir það að mér sé ýtt til hliðar en ég læt ekki vaða yfir mig. Ég er hörð í horn að taka. Það er ólíklegt að öllum líki það og mér er alveg sama. Ég ætla ekki að biðja um leyfi eða rými – ég tek það. Ég biðst ekki afsök­unar á sjálfri mér.“

Hvað með að aðlaga þig umhverfinu til þess að falla betur inn. Til dæmis í klæðnaði?
„Ég fer til dæmis alltaf á háum hælum á fundi því ég hef tölfræðina alltaf í huga. Hávaxið fólk er til dæmis al­mennt með hærri laun. Töl­fræðin segir mér líka að það sé líklegt að stærsti hluti fólksins á fundinum séu karlmenn og að þeir séu flestir hærri en ég. Ég vil ekki vera mikið lægri en þeir svo ég fer á hælum. En það er fyrir mig.“

 

Myndir: Sigtryggur Ari (Diddi)
Förðun: Elín Reynis
Fatnaður: GK
Sérstakar þakkir: Hótel Borg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Tanja Ýr á von á barni

Tanja Ýr á von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Síðasta mynd Simmons og færslan sem hann útbjó fyrir andlátið

Síðasta mynd Simmons og færslan sem hann útbjó fyrir andlátið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jón Viðar og Sigga eiga von á barni

Jón Viðar og Sigga eiga von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Unnur Óla með eigin útgáfu af ,,Hawk Tuah“

Unnur Óla með eigin útgáfu af ,,Hawk Tuah“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Miðvesturríkjamamman sem elskar Ísland

Miðvesturríkjamamman sem elskar Ísland
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lordi ekki hrifnir af rokklögum í Eurovision undanfarin ár – „Inn um annað og út um hitt“

Lordi ekki hrifnir af rokklögum í Eurovision undanfarin ár – „Inn um annað og út um hitt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Afmæliskaka Trump eykur á ríginn milli Taylor Swift og Kim Kardashian

Afmæliskaka Trump eykur á ríginn milli Taylor Swift og Kim Kardashian
Fókus
Fyrir 5 dögum

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið