Jamie Towers, tvítugur maður frá skoska bænum Ayr, sá til þess að Hamilton Academical vann skosku deildina á þriðjudag, það er að segja í tölvuleiknum Football Manager.
Einungis einu stigi munaði á Hamilton og skosku risunum í Celtic, en að sögn Towers var titilbaráttan ansi jöfn.
„Úrslitin réðust á seinasta keppnisdegi þegar Celtic tapaði fyrir Rangers, en þá þurfti ég að sigra Aberdeen, sem tókst með 2-1 sigri. Þetta var brjálað.“ Sagði Jamie Towers við SPORTbible, en fagnaðarlæti hans vöktu gríðarlega athygli.
Hann er mikill aðdáandi leiksins og segist spila hann að meðaltali í fjóra eða fimm tíma á dag. Í kjölfar sögulegs sigurs Hamilton Academical í Football Manager ákvað Jamie að kveikja á rauðu blysi til að fagna áfanganum, og það innan úr íbúðinni sinni.
„Ég ákvað bara að gera það upp á gamnið,“ sagði hann. „Svo fóru nágrannarnir í næsta húsi að kalla og fagna!“ sagði hann.
Jamie Towers birti myndir af fagnaðarlátunum á samfélagsmiðlinum Twitter, sem vöktu mjög mikla athygli. Tíst hans má sjá hér að neðan:
Day 14 without football:
Just won the league on football manager pic.twitter.com/VWnL4zN5Um
— Jamie Towers (@JamieTowers8) March 26, 2020