Franska Arsenal-goðsögnin Thierry Henry hefur tilkynnt að hann muni hætta að nota samfélagsmiðla. Ástæðan er sú að honum finnst miðlarnir ekki vera að taka nægilega hart á rasisma og neteinelti.
Henry tilkynnti ákvörðun sína á eigin samfélagsmiðlum, en þar sagði:
„Frá og með morgundeginum mun ég loka á aðganga mína á samfélagsmiðlum. Það mun ekki breyttast fyrr en fólkið sem stjórna miðlunum ákveða að setja harðara regluverk en nú er til staðar. Það þarf að sýna jafn mikla hörku og í höfundarréttarmálum.“
„Gríðarlegt magn er af rasisma og einelti sem veldur andlegum pyntingum. Ástandið er allt of eitrað til þess að gera ekki neitt. Fólk þarf að gerast ábyrgt gjörða sinna.“
„Það er allt of auðvelt að búa til aðgang og nota hann til að leggja í einelti og áreita án nokkurra afleiðinga, og takast auk þess að fara huldu höfði.“
„Þangað til þetta breytist mun ég loka öllum aðgöngum mínum á samfélagsmiðlum. Ég vona að breytingin eigi sér stað fljótlega.“
Vitað er til þess að margir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar hafi orðið fórnarlömb rasisma á samfélagsmiðlum síðastliðin misseri og gæti vel verið að það hafi áhrif á ákvörðun Henry.
Enska knattspyrnusambandið hefur einnig hvatt til breytinga, en það krafðist þess að notendur þyrftu að auðkenna sig til þess að nota samfélagsmiðla. Það gerðist í kjölfar þess að níð í garð fótboltamanna færðist í aukanna.