Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands er fullfrískur og klár í slaginn gegn Armeníu á morgun. Íslenska liðið kom til Armeníu í gær eftir nokkuð langt ferðalag frá Þýskalandi.
Íslenska liðið tapaði 3-0 gegn Þýskalandi á fimmtudag en Aron Einar og félagar voru þar að spila í fyrsta sinn undir stjórn Arnars Þórs Viðarsson.
„Breytingarnar eru ekkert miklar, smávægilegar öðruvísi hreyfingar í nokkrum færslum. Það er ekkert þannig séð mikið sem við þurfum að breyta, við höfum haft stuttan tíma til að fara yfir þær. Í leiknum á móti Þjóðverjum fannst mér við venjast því hratt, unnum okkur aðeins inn í leikinn. Þessar hreyfingar koma svo bara að sjálfu sér, við höfum leikmenn sem spilað hafa ýmis kerfi hjá félagsliðum. Við erum vanir ýmsu,“ sagði Aron Einar en Arnar Þór virðist leggja mesta áherslu upp úr 4-1-4-1 kerfinu.
„Ég er vanur því að vera svona sitjandi miðjumaður sem þarf að stjórna svolítið í kringum mig. Þetta er ekkert sem ég er óvanur.“
Aron Einar er við góða heilsu og er klár í þennan mikilvæga leik. „Mér líður vel, við vissum að leikurinn yrði erfiður gegn Þýskalandi. Þeir hafa sýnt það og sannað, 17 leikir sem þeir hafa unnið í röð í undankeppni HM. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur en mér líður vel eftir leikinn. Þetta var mikil varnarvinna, við hefðum getað verið í því betri þegar við fengum boltann, allir. Við komum til með að bæta það.“
„Lykilinn að sigri á morgun er að við þurfum að spila okkar leik, vera skipulagðir. Vera þolinmóðir í vörn og sókn, halda boltanum betur. Færa boltann hratt, eins og Arnar talar um er þetta skipulagt lið. Þeir eru með gott sjálfstraust, hafa unnið fjóra af síðustu sex leikjum. Þurfum að vera þolinmóðir að brjóta þá niður, við þurfum að spila okkar leik almennilega. VIð sköpum alltaf færi, við þurfum að nýta þau.“