Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu hefur boðað breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn gegn Armeníu í undankeppni HM á morgun. Íslenska liðið tapaði 3-0 gegn Þjóðverjum á fimmtudag.
„Ástandið á leikmönnum er bara mjög gott, æfðum í gærmorgun í Þýskalandi og þeir leikmenn sem byrjuðu leikinn á móti Þjóðverjum voru í endurheimt. Þeir sem spiluðu minna eða ekkert fengu góða æfingu, það var langt ferðalag til Armeníu. Mikill tímamismunur sem er það erfiðasta í þessu, við tókum þá ákvörðun í sameiningu við leikmenn að seinka öllu hérna. Svo þeir gætu fengið sína hvíld, það hjálpar til að fá góðan svefn. Ástandið er mjög gott, við sjáum betur á eftir og á æfingu hvort það sé eitthvað hnjask þegar æfingin hefst,“ sagði Arnar Þór á fréttamannafundi í dag.
Rúnar Már Sigurjónsson varð að fara af velli gegn Þýskalandi vegna meiðsla í andliti. „Rúnar Már er mikið betri, fékk högg á augað sem varð til þess að hann sá ekki út um. Það er allt á réttri leið,“ sagði Arnar um ástandið.
Jóhann Berg Guðmundsson kom ekki við sögu gegn Þýskalandi en allt bendir til þess að hann byrji gegn Armeníu á morgun. „Jói æfði 100 prósent með leikmönnum í gær og það var ekkert reaction, hann var í fínu standi. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta, leikmenn eru í góðu standi.“
Arnar hefur boðað það að gera breytingar í leiknum á morgun en búast má við að Jóhann Berg Guðmundsson, Albert Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson komi hið minnsta allir inn í byrjunarliðið. „Við munum gera breytingar á milli leikja, það var vitað. Hvað eru margar breytingar? Á milli leikja verða fleiri breytingar ef það væri í venjulegu árferði og bara tveir leikir. Við gerum breytingar.“
„Þegar ég tala um að gera breytingar þá erum við að dreifa álaginu.“