Á síðustu sex árum hafa dönsk skattyfirvöld innheimt sem svarar til um 6,5 milljörðum íslenskra króna í gjöld af sælgæti sem var flutt ólöglega til Danmerkur og selt þar í landi. Skatturinn hefur verið með markvissar aðgerðir í þessum efnum og heimsótt verslanir og söluturna þar sem talin var hætta á að sælgæti, sem tilskilin gjöld hefðu ekki verið greidd af, væri selt.
Þetta skilaði heldur betur árangri en í tilkynningu frá skattyfirvöldum segir að mikið magn af sælgæti sé flutt til landsins án þess að tilskilin gjöld séu greidd af því. Þetta sælgæti sé selt í leyfislausum bílskúrsverslunum og einnig hjá þekktum verslunarkeðjum sem reyni að selja sælgæti og aðrar sykurvörur án þess að greiða af þeim tilskilin gjöld.