Ísland hóf leik í undankeppni HM í kvöld með útileik gegn Þýskalandi í Duisburg. Leiknum lauk með 3-0 sigri Þjóðverja.
Það má í raun segja að Þjóðverjar hafi stjórnað leiknum frá byrjun. Á 2. mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar að Leon Goretzka kom heimamönnum yfir eftir stoðsendingu frá Serge Gnabry.
Það leið síðan ekki á löngu þar til Þjóðverjar höfðu tvöfaldað forystu sína. Á 7. mínútu bætti Kai Havertz, við öðru marki Þjóðverja eftir laglegt spil þar sem liðið sundurspilaði íslenska liðið.
Íslenska liðið þétti raðirnar eftir þetta mark en gekk erfiðlega að skapa sér færi gegn ógnarsterkum Þjóðverjum.
Það fór svo að Þjóðverjar bættu við þriðja marki sínu á 56. mínútu eftir nokkuð góðan kafla frá íslenska liðinu sem mætti tilbúnara til leiks í síðari hálfleik.
Þriðja mark Þjóðverja, skoraði Ilkay Gundogan, með skoti fyrir utan teig.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum, Ísland byrjar undankeppni HM með 3-0 tapi gegn Þýskalandi.
Tveir aðrir leikir fóru fram í riðli Íslands í kvöld. Armenía vann 1-0 sigur á Liechtenstein og Rúmenía bar 3-2 sigur úr býtum gegn Makedóníu.
Nú er enginn tími fyrir íslenska landsliðið til þess að slaka á. Liðið verður að ná í úrslit í næstu tveimur leikjum til þess að falla ekki aftur úr efstu liðum riðilsins.
Næsti leikur íslenska karlalandsliðsins er á sunnudaginn gegn Armeníu. Liðið spilar síðan við Liechtenstein þann 31. mars. Báðir leikirnir eru liður í undankeppni HM sem fram fer í Katar árið 2022.