Bónus hefur tekið í gagnið nýtt tæki sem auðveldar viðskiptavinum sótthreinsun á innkaupakerrum. Um er að ræða sótthreinsitæki fyrir innkaupakerrur og handkörfur sem er mikilvæg viðbót við sóttvarnir sem eru þegar fyrir í Bónus og minnkar smithættu. Tækin hafa verið tekin í notkun í Bónus Smáratorgi, Skeifunni og á Korputorgi og verður sett upp í næstu viku í Kauptúni.
„Sóttvarnir hafa verið stór hluti af okkar starfsemi síðasta árið enda öryggi okkar viðskiptavina og starfsmanna ávallt í fyrirrúmi. Það er þó nokkuð síðan við pöntuðum þessi tæki en vegna eftirspurnar bárust þau ekki fyrr en núna. Tækið er afar einfalt í notkun. Innkaupakerra er keyrð inn í tækið og beðið er á meðan útfjólubláir geislar sótthreinsa. Mikilvægt er að sótthreinsa hendur á meðan beðið er eftir kerrunni. Starfsmenn okkar munu leiðbeina viðskiptavinum við notkunina. Við hvetjum viðskiptavini samt sem áður að huga að almennum sóttvörnum við komu og brottför úr verslunum Bónus enda er þetta einungis viðbót við núverandi sóttvarnaraðgerðir,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.