Fréttablaðið skýrir frá þessu. „Það sem við höfum haft hvað mestar áhyggjur af í faraldrinum er að starfsfólk sé frískt og geti sinnt sínum störfum. Við höfum verið gæfusöm hvað það varðar hingað til,“ sagði Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, í samtali við Fréttablaðið og sagði það vonbrigði að bólusetningarnar væru ekki komnar lengra á veg.
Hann sagði að starfsfólk Blóðbankans verði bólusett í næsta áfanga bólusetninga og að tilhlökkun ríki vegna þess þar sem starfsemi bankans sé viðkvæm og starfsfólkið þurfi að geta tekið á móti blóðgjöfum.
Í upphafi heimsfaraldursins voru uppi áhyggjur um að blóðgjafar myndu ekki skila sér í bankann en erlendis höfðu komið upp dæmi um 30 til 40% fækkun heimsókna blóðgjafa. Hér á landi var samdrátturinn 10% á síðasta ári. Þar sem mörgum valkvæðum aðgerðum var frestað fór forði bankans aldrei niður fyrir öryggismörk.
Sveinn sagði að með nýjum klínískum leiðbeiningum til heilbrigðisstarfsfólks hafi á skipulagðan hátt tekist að draga úr blóðnotkun á undanförnum árum. „Okkur hefur tekist að minnka notkunina um þriðjung á tíu árum. Blóð er dýrmæt afurð sem ber ekki að nota nema þörf sé á,“ er haft eftir honum.