Á mánudaginn greindust 47.000 smit og hafa ekki verið fleiri á einum degi í marga mánuði. Byrjað er að herða sóttvarnaaðgerðir en þær munu koma illa niður á mörgum og margir munu missa vinnuna og hinir fátækustu munu verða enn fátækari. Víða virðir fólk sóttvarnaráðstafanirnar að engu og notar ekki andlitsgrímur og virðir ekki kröfur um að halda góðri fjarlægð á milli sín og annarra.
Yfirvöld hafa varað við pólitískum fundum vegna smithættu og óttast enn frekari útbreiðslu smita þegar hindúar koma saman og fagna á næstunni við Ganges. Tólfta hvert ár er Kumbh Mela fagnað og ber hátíðina upp á nú í ár og stendur yfir í viku og er talið að 150 milljónir manna muni leggja leið sína til Haridwar til að taka þátt en margir telja að þeir fái syndaaflausn með að baða sig í Ganges.
Tæplega 12 milljónir hafa nú greinst með veiruna á Indlandi og um 160.000 hafa látist.
Indverjar eru stærstu framleiðendur bóluefna í heiminum. Þeir hafa flutt rúmlega 60 milljónir skammta til 76 landa og hafa sjálfir notað 44 milljónir skammta síðan bólusetningar hófust um miðjan janúar. Stefnt er að því að búið verði að bólusetja 300 milljónir landsmanna í ágúst en þá verður um einn milljarður enn óbólusettur.
Á mánudaginn var tilkynnt að eitt af stóru indversku lyfjafyrirtækjunum hafi samið við rússneska fjárfestingarsjóðinn RDIF um framleiðslu á allt að 200 milljónum skammta af Sputnik V á ári.