fbpx
Sunnudagur 02.febrúar 2025
433Sport

Ítarlegt einkaviðtal við Lars Lagerback: „Ég veit að ég hef það orðspor á mér“

Aron Guðmundsson, Hörður Snævar Jónsson
Þriðjudaginn 23. mars 2021 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru líklegast fáir sem áttu von á því að sjá Lars Lagerback aftur í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins er hann lét af störfum sem landsliðsþjálfari árið 2016 eftir að hafa stýrt íslenska liðinu með mögnuðum árangri.

Margir ráku því upp stór augu er tilkynnt var um ráðningu Lars Lagerback sem tæknilegs ráðgjafa í þjálfarateymi Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara hjá íslenska karlalandsliðinu.

Lætur í ljós sínar skoðanir en lokaákvörðun liggur hjá Arnari

Lars er í annarri stöðu en þegar hann stjórnaði íslenska karlalandsliðinu á sínum tíma með góðum árangri. Nú er hann einn af aðstoðarmönnum Arnars Þórs, landsliðsþjálfara og ber titilinn tæknilegur ráðgjafi. Þessi staða er Lars ekki alveg ókunn, þó hann sé þekktari fyrir það að vera aðalþjálfari.

„Þetta er auðvitað öðruvísi staða. Ég fékk smá æfingu í þessu þegar ég var í þjálfarateyminu hjá sænska landsliðinu í sex mánuði eftir að ég lét af störfum sem landsliðsþjálfari Íslands.“

Arnar Þór Viðarsson var ráðinn landsliðsþjálfari í desember

Þetta nýja hlutverk Lars Lagerback hjá íslenska landsliðinu, leggst vel í hann.

„Ég veit að þetta er öðruvísi staða, Arnar tekur allar lokaákvarðanir.  Maður veit aldrei hvernig þetta gengur upp þegar að maður hefur ekki hitt aðalþjálfarana, ég hafði aðeins hitt Arnar einu sinni áður en hingað til hefur þetta bara verið jákvæð reynsla.“

„Ég get haft mínar skoðanir á hlutunum er varða landsliðið en að endingu er það Arnar sem tekur ákvörðunina og hann axlar ábyrgðina,“ sagði Lars Lagerback í viðtali við 433.is.

Segir gott að starfa með sínum fyrrum leikmönnum aftur

Lars náði góðum tengslum við leikmenn íslenska landsliðsins á sínum tíma og þeir eru margir hverjir enn þá í landsliðshóp íslenska landsliðsins. Lars segir góða tilfinningu fylgja því að endurnýja kynnin við þá.

„Það er mjög góð tilfinning að hitta leikmennina aftur. Sumir þeirra sendu mér meira að segja textaskilaboð og hringdu í mig þegar að það var tilkynnt að ég yrði hluti af þjálfarateyminu. Frá því sjónarhorni var það mjög auðveld ákvörðun fyrir mig að snúa aftur til íslenska landsliðsins.“

„Það eru aðeins 4-5 leikmenn í núverandi landsliðshóp sem ég hef ekki hitt áður en það er mjög gott að sjá mína fyrrum leikmenn aftur.“

Getty Images

Ekki hræddur um að sverta arfleið sína með íslenska landsliðinu

Lars náði frábærum árangri með íslenska landsliðinu og stýrði því á sitt fyrsta stórmót frá upphafi, hann skráði sig um leið í sögubækur íslenskrar knattspyrnu. Lars er ekki hræddur um að sverta arfleið sína með íslenska landsliðinu.

„Ég hef reynt að segja skilið við knattspyrnuheiminn í mörg ár en það koma í sífellu spennandi tækifæri upp í hendurnar á mér. Ég hef ekki áhyggjur af því sem liðið er og hvort að það muni ekki ganga jafn vel og þegar ég var síðast með íslenska landsliðið.“

GettyImages

„Þetta er fótbolti, maður getur aðeins gert sitt besta. Eins og ég hef sagt áður þá er það þannig að ef Arnar og Eiður telja að ég geti hjálpað sér, þá er það mín ánægja að geta gert það. Við getum litið á þetta sem smá endurgjald fyrir þau dásamlegu ár sem ég átti með íslenska landsliðinu á sínum tíma,“ sagði Lars Lagerback í viðtali við 433.is.

„Eigum alltaf að stefna að fyrsta sæti“

Lars er nú með íslenska karlalandsliðinu í Þýskalandi þar sem liðið undirbýr sig fyrir sinn fyrsta leik í undankeppni HM, gegn heimamönnum á fimmtudaginn.

„Það er mjög gott að komast aftur í það umhverfi að undirbúa liðið fyrir leik þrátt fyrir að þetta sé allt saman öðruvísi vegna Covid-19 heimsfaraldursins.“

„Við höfum átt marga fundi saman í gegnum tölvuskjá fyrir þetta landsliðsverkefni og höfum unnið mikla og góða vinnu með þeim fundum en þetta er auðvitað allt öðruvísi ferli en við höfum vanist áður. Hingað til er ég samt mjög ánægður með það hvernig þetta hefur gengið.“

En hverja telur Lars, möguleika Íslands vera fyrir undankeppni HM?

„Ég vil vera hreinskilinn og raunsær. Á pappír er Þýskaland sigurstranglegasta liðið í riðlinum en annars er riðillinn mjög opinn hvað annað sæti varðar. Það er það sæti sem við eigum að ætlast til að enda í en að sjálfsögðu eigum við að reyna atast í Þýskalandi.“

„Við eigum alltaf að stefna að fyrsta sæti en ef það er ekki að ganga upp þá standa vonir okkar til að enda í öðru sæti.“

Getur sætt sig við upplegg Arnars og Eiðs Smára

Lars var þekktur fyrir það að láta íslenska liðið spila leikkerfið 4-4-2, með tveimur framherjum. Arnar og Eiður virðast ætla láta íslenska landsliðið spila leikerfi sem svipar til 4-1-4-1, með einum framherja en Lars segir að það angri sig ekkert.

„Ég veit að ég hef það orðspor á mér að vera þjálfari sem vill spila með tvo framherja. Það er satt vegna þess að þegar að maður er með lið sem er talið vera minni spámaður, felst forskotið í því að spila með tvo framherja, ég tel að það gefi liðinu meiri sigurlíkur.“

„Þegar að maður spilar annað leikkerfi, með einum framherja, þá eru meiri líkur á því að maður haldi markinu hreinu. Í svoleiðis kerfi er liðið sterkara varnarlega. Ég hef ekkert á móti svoleiðis kerfum og hef í raun spilað svoleiðis kerfi í leikjum með sænska og norska landsliðinu.“

„Það er líka þannig að þegar maður spilar leikkerfi með tveimur framherjum, þá þurfa þeir að vera mjög vinnusamir. Í grunninn þarf maður að aðlaga sín leikkerfi að leikmannahópnum sem maður er að vinna með.“

Aðrir verða að stíga upp í fjarveru Gylfa

Tilkynnt var um það á sunnudaginn að Gylfi Þór Sigurðsson, hefði dregið sig út úr íslenska landsliðshópnum, ástæðan er sú að eiginkona hans á von á þeirra fyrsta barni innan tíðar.

Árangur Íslands án Gylfa er vægast sagt slakur, í heildina hefur Gylfi misst af sex landsleikjum og Ísland hefur tapað þeim öllum.

Gylfi Þór Sigurðsson

„Ég vissi reyndar ekki að íslenska karlalandsliðið hefði aldrei unnið án Gylfa, það hljómar ekki vel,“ sagði Lagerback er honum var greint frá þessari tölfræði.

„Það er áskorun fyrir okkur að reyna að laga það. Gylfi er í mínum augum einn af þeim bestu þegar þú horfir á miðjumann sem getur spilað í báðar áttir. Hann getur varist og sótt, hann er með frábæran hægri fót og leggur mikið á sig fyrir liðið.“

„Þú saknar hans alltaf ef hann er ekki til staðar. Við verðum hins vegar að einbeita okkur að þeim sem eru hérna og þeir verða að fylla í hans skarð,“ sagði Lars Lagerback.

Hægt að líta á litla endurnýjun jákvæðum augum

Lars segir að auðvitað sé það mjög athyglisvert að margir af þeim leikmönnum sem hann þjálfaði á sínum tíma með íslenska landsliðið séu enn máttarstólpar í liðinu en það hafi líka í för með sér góða eiginleika.

„Ég segi yfirleitt nú til dags að það sé fátt sem komi mér á óvart í tengslum við fótboltann en auðvitað var ég smá undrandi á því. Ég hef að sjálfsögðu fylgst með íslenska landsliðinu eftir að ég lét af störfum þannig að ég vissi af þessu. Það er hins vegar gaman að sjá hversu mótiveraðir leikmenn á borð við Kára, Hannes og Ragnar eru í að spila með íslenska landsliðinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Fyrstur í sögu félagsins til að skora tvær þrennur í röð

Fyrstur í sögu félagsins til að skora tvær þrennur í röð
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

England: Mateta kláraði Manchester United – Tottenham með flottan sigur

England: Mateta kláraði Manchester United – Tottenham með flottan sigur
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Bætti met Haaland – ,,Hlýt að vera gera eitthvað rétt“

Bætti met Haaland – ,,Hlýt að vera gera eitthvað rétt“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum
Bayern gefst upp í bili
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Salah kominn í sjötta sætið – Aðeins sjö mörk í næstu goðsögn

Salah kominn í sjötta sætið – Aðeins sjö mörk í næstu goðsögn
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Líflína fyrir leikmann Chelsea – Fer hann fyrir gluggalok?

Líflína fyrir leikmann Chelsea – Fer hann fyrir gluggalok?
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Sjáðu umdeilda atvik gærdagsins – Voru dómararnir góðir við Liverpool?

Sjáðu umdeilda atvik gærdagsins – Voru dómararnir góðir við Liverpool?
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Slot um stöðuna: ,,Aldrei gott þegar leikmaður biður um skiptingu“

Slot um stöðuna: ,,Aldrei gott þegar leikmaður biður um skiptingu“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Telja morgunljóst að fyrsti brottrekstur ársins á Íslandi verði þarna – „Mér finnst þetta bara svo lélegt“

Telja morgunljóst að fyrsti brottrekstur ársins á Íslandi verði þarna – „Mér finnst þetta bara svo lélegt“