Laugardagurinn 18. janúar árið 2020 var örlagadagur í lífi Ellu – Elínborgar Steinunnardóttur – og fjölskyldu hennar, þá hófst martröð sem ekki sér fyrir endann á. Ella var í bíl með vinkonu sinni á Sandgerðisvegi þegar framan á þær ók ungur maður, uppdópaður, á stolnum bíl, á ofsahraða, á flótta undan lögreglunni og á röngum vegarhelmingi.
Slysið hafði hræðilegar afleiðingar fyrir Ellu sem var í 58 vikur á sjúkrahúsi. Hún hefur nýlega flutt heim til sín í Hafnir á Reykjanesi þar sem hún nýtur NPA-þjónustu, sem er sólarhringsaðstoð fyrir fatlað fólk. Í millitíðinni missti Ella ástkæran eiginmann sinn, Þröst Ingimarsson, sem lést 19. nóvember 2020.
Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi og var í morgun dæmdur í sjö mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness. Hann samþykkti einnig miskabótakröfu og var dæmdur til að greiða Ellu fjórar milljónir króna.
Ella á mjög erfitt með að kyngja þessum dómi sem hún telur allt of vægan. „Mér finnst dómurinn fáránlegur. Ég fékk lífstíðardóm en hann fær sjö mánuði. Þó að hann hafi ekki keyrt viljandi á okkur þá settist hann viljandi undir stýri í þessu ástandi og vissi vel hvaða afleiðingar það gæti haft,“ segir Ella.
„Það hefði átt að kveða upp dóm sem hefði orðið öðrum víti til varnaðar,“ bætir hún við með þunga.
Hún segir að maðurinn hafi sýnt iðrun, meðal annars í bréfi sem hann skrifaði henni. „Hann hefur snúið lífi sínu við, er orðinn edrú og í skóla. Það er gott fyrir hann og hans fjölskyldu en ég á samt mjög erfitt með að fyrirgefa honum. Hann tók svo mikið af mér og hann tók svo mikinn tíma af mér og manninum mínum saman,“ segir Ella en hún og Þröstur heitinn urðu að vera viðskila mjög lengi, bæði fárveik, hann með krabbamein og hún að glíma við afleiðingar slyssins.
„Miðað við þann lífstíðardóm sem þetta er fyrir mig þá hefði hann átt að fá að minnsta kosti nokkurra ára fangelsi.“
Daginn áður en ógæfumaðurinn ók á Ellu og vinkonu hennar var krafist síbrotagæslu yfir honum, enda hafði hann ítrekað stolið bílum og ekið undir áhrifum vímuefna. Systir Ellu, Borghildur Guðmundsdóttir, minnir á þessa staðreynd í viðtali við DV.
„Ef hann hefði verið kominn í síbrotagæslu þennan dag þá værum við ekki að eiga þetta samtal núna,“ segir hún en Borghildur er gagnrýnin á lögreglu og allt réttarkerfið í ljósi málsins.
Í fyrsta lagi hefði maðurinn ekki átt að ganga laus heldur vera í síbrotagæslu því það var bara tímaspursmál hvenær þetta síendurtekna framferði hans hefði hræðilegar afleiðingar.
Í öðru lagi telur Borghildur að lögreglan hefði átt að vera búin að keyra manninn út af veginum, eins og gert hefur verið við sambærilegar eftirferðir lögreglu á eftir hættulegum ofsaakstursmönnum, þar sem brýnt þykir að koma þeim úr umferð eins fljótt og hægt er.
Í þriðja lagi er það dómurinn sem er fallinn núna. Hann er bæði Ellu og Borghildi, og raunar öllum í fjölskyldunni þungt áfall.
„Ég græt svo mikið yfir þessu að ég næ varla að hugsa,“ segir Borghildur, rödd hennar brestur, og hún tekur sér nokkur andartök til að ná jafnvægi aftur. Síðan segir hún:
„Ég fékk þennan link á dóminn sendan í vinnuna. Ég stóð upp, slökkti á tölvunni og fór heim. Þetta er eins og að skjóta mig í hjartað.“
Hún rekur í nokkru máli, það sem hún telur vera fáránleika þessa dóms, sjö mánaða fangelsi:
„Sjö mánaða dómur, hverju á hann að skila til þessa manns? Þessir sjö mánuðir ná ekki einu sinni yfir það sem hann var búinn að brjóta af sér áður en hann eyðilagði líf okkar, og þá sérstaklega hennar Ellu.“
Borghildur bendir á að maður sem stal skartripum af henni fyrir nokkrum árum hafi fengið 18 mánaða dóm fyrir uppsöfnuð smáafbrot. „Hann gerði miklu minna af sér en það sem þessi maður hefur gert. Sá maður meiddi aldrei neinn. Þetta vil ég fá útskýrt, hvernig fáum við það út í þessu samfélagi að maðurinn sem stal skartgripaskríninu mínu en meiddi aldrei neinn, að hann fái 18 mánuði en þessi maður sjö mánuði?“
Borghildur segir að yfirlýst iðrun mannsins, játning hans og afsökunarbeiðni hafi ekkert að segja fyrir hana og hennar fjölskyldu. „Þessi maður hefur brotið oft af sér og er því vanur að fá ráðgjöf lögfræðings sem leiðbeinir honum í gegnum ferlið. Regla númer eitt er að biðjast afsökunar, regla númer tvö er að haga sér vel og regla númer þrjú er að viðurkenna allt, þá færðu vægari dóm. Þetta segir okkur ekki neitt. Þó að þetta hefði gerst áður þá hélt hann áfram að brjóta af sér. Þannig að við þennan mann segi ég: Þín afsökunarbeiðni skiptir mig engu máli. Þegar þú ert búinn að bæta þitt ráð og skila jafnmiklu út í samfélagið og þú hefur tekið frá öðrum, þá skulum við tala saman.“
Borghildur hefur jafnframt ritað eftirfarandi yfirlýsingu vegna málsins og sent til fjölmiðla:
Yfirlýsing vegna dóms. 23.03.2021
„Í dag 23.03.2021 fáum fjölskyldan einn eitt sparkið og það beint í hjartað og það beint frá dómstól þessa lands.
Að síbrotamaðurinn sem olli systur minni Elinborgu Steinunnardóttur örkumlun, rændi hana framtíðar draumum á þrá og stundum viljan til að lifa fái 7 mánaða fangelsisdóm er með öllu óskiljanlegt. Að síbrotamaðurinn sem olli bestu vinkonu systur minnar og ökumanni bifreiðarinnar sem systir mín var farþegi í, verulegu andlegu tjóni fyrir lífstíð, fái 7 mánaða fangelsisdóm er með öllu óskiljanlegt.
Síbrotamaðurinn sem keyrði á 150 km hraða við slæm veður skilyrði á flótta undan lögreglu enda vissi hann rétt frá röngu, og lagði fjölmarga borgara í hættu, dýr, börn og fullorðna, og endaði á því að brjóta fótleggi, mjaðmargrind, bringubein, fjölmörg rifbein, úlnlið, olnboga ásamt innri áverkum og blæðingum, auk óafturkræfðri heilablæðingu og heiladrepi og það bara í systur minni, svo hún mun aldrei ganga eða fá stjórn á öðru en hægri handlegg og hugsunum sínum er blákaldur veruleiki heillar fjölskyldu. Merkilega missti hún ekkert mynni né meðvitund og man því hvert einasta smáatriði hvernig hún hefur þurft að þjást síðan slysið átti sér stað 18.01.2020. Og það gerum við öll sem að þessum skelfilegu afleyðingum gjörða þessa manns hafa komið. Systir mín talaði við æðri mátt alla leið frá því að vera klippt út úr hræinu sem hún sat föst í með mælaborðið á kafi í lærinu á sér og alla leið á sjúkrahús og bað um að fá að lifa. Þetta kostaði eiginmann systur minnar sína sálar ró og frið síðustu 10 mánuðina sem hann lifði. Hann deyr enn ekki vitandi lífslíkur né lífs möguleika eiginkonu sinnar. Þetta kostaði son þeirra og dóttur lífið eins og þau þekktu það og dómur fyrir að valda slíku er vanvirðing í sinni svæsnustu mynd, aðeins 7 mánuðir. Ég neita að trúa því að mannskepnan sé ódýrari fyrir dómstólum en veðhlaupahestur.
Systir mín hefur grátið og við öll í marga mánuði í þeirri baráttu sem við öll höfum þurft að heyja til að borga fyrir hrottalegt gáleysi þessa unga manns sem hefur ýtrekað stolið bifreiðum undir áhrifum fíkniefna ásamt fleiri brotum gegn löggjöfinni og ættu því að vera þessum unga manni deginum ljósara hverjar mögulegar afleyðingar gjörða hans gætu verið. Afsökunarbeiðni frá honum er ekki tekin til greina. Hann verður alltaf dæmdur af gjörðum sínum og ættu dómstólar að vera bakbein borgara þessa lands í að krefjast þess að fólk virði mannslíf annara með viðeigandi refsingu en ekki 7 mánaða orlofi í fríu fæði og húsnæði.
Við viljum taka sérstaklega fram að engin okkar ber kala til fjölskyldu og ættingja þessa unga manns og vonum eindregið að þau fái viðeigandi aðstoð við sínu áfalli því Guð veit að þetta er nánast ólýsanlegur sársauki fyrir okkur öll.
Virðingarfyllst. Borghildur Guðmundsdóttir“