Allar líkur eru á því að Jurgen Klopp stjóri Liverpool þurfi að styrkja miðsvæði sitt í sumar en Georgino Wijnaldum er að verða samningslaus. Hollenski miðjumaðurinn hefur hingað til ekki viljað framlengja dvöl sína á Anfield.
Wijnaldum og forráðamenn Liverpool hafa lengi verið að karpa um kaup og kjör en ekki fundið neina lausn, miklar líkur eru taldar á að hann fari frítt til Barcelona í sumar.
Ítalskir miðlar segja frá því að Liverpool skoði nú þann kost að fá inn Aaron Ramsey miðjumann Juventus í sumar, West Ham hefur einnig sýnt áhuga.
Ljóst er að Ramsey þarf að taka á sig verulega launalækkun en hann þénar nálægt 400 þúsund pundum á viku samkvæmt fréttum. Ramsey kom frítt til Juventus frá Arsenal fyrir tæpum tveimur árum.
Ramsey hefur ekki fundið taktinn hjá Juventus en hann átti góð ár hjá Arsenal þar sem miðjumaðurinn frá Wales var nokkuð duglegur við að skora.