Guðlaugur Victor Pálsson verður að öllum líkindum í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.
Íslenska liðið hefur leik í undankeppni HM á fimmtudag, ljóst er að verkefnið er ærið þegar liðið heimsækir Þýskaland. Liðið leikur þrjá leiki í þessu verkefni en á eftir koma leikir við Armeníu og Liechtenstein.
Guðlaugur Victor fékk í fyrsta sinn stórt hlutverk í landsliðinu undir stjórn Erik Hamren, þá sem bakvörður en nú bendir allt til þess að hann verði á miðjunni sem er hans náttúrulega staða.
„Maður fer upp og niður í fótboltanum og maður hefur ekki alltaf allt í eigin höndum. En ég hef bara unnið mjög hart að því að komast aftur í landsliðshópinn og stimpla mig svo inn í hann. Hvort sem það er í hægri bakverði eða á miðjunni, það skiptir mig í raun ekki neinu máli,“ segir Guðlaugur í samtali við RÚV um stöðu máli
Guðlaugur beið þolinmóður eftir tækifærinu í landsliðinu og gafst ekki upp.
„En fyrir mitt leyti er það bara að ég hef haft skýr markmið og mig hefur alltaf langað til að vera mikilvægur partur af íslenska landsliðinu. Ég gaf aldrei upp vonina á því. Þó ég hafi kannski ekki verið lengi í liðinu á þeim tíma. Núna hef ég verið í kringum liðið í nokkur ár og er að berjast fyrir því að vera í byrjunarliðinu. Ég fékk marga leiki hjá síðasta þjálfarateymi og ég stefni að því sama hjá núverandi þjálfurum,“ sagði Guðlaugur Victor við RÚV.