Merkel og leiðtogar sambandsríkjanna náðu í gær samkomulagi um að framlengja núgildandi sóttvarnaaðgerðir til 18. apríl. Merkel varaði landa sína við að ferðast til útlanda og sagði að stjórnvöld hafi náð samkomulagi við flugfélög um að allir farþegar þeirra verði að fara í sýnatöku áður en þeim er hleypt um borð.
Hún sagði að staðan sé mjög alvarleg og nú sé um kapphlaup við tímann að ræða við að bólusetja landsmenn. Því þurfi að draga úr fjölda nýrra smita til að áhrif bólusetninga verði enn meiri. Hún sagði að það sé breska afbrigðið sem valdi flestum smitum þessa dagana.
Hún tilkynnti að páskarnir verði framlengdir og að fólk eigi að halda sig heima. 1. til 5. apríl verða „rólegir dagar“ þar sem fólk á að forðast samneyti við annað fólk sagði hún og að fimm fullorðnir, frá tveimur heimilum, megi að hámarki hittast á þessum tíma.
Núverandi sóttvarnaaðgerðir hafa verið í gildi síðan 16. desember og verða nú framlengdar til 18. apríl.