Zlatan Ibrahimovic var á dögunum valinn aftur í sænska landsliðið en leikmaðurinn gaf það út að hann væri hættur að spila fyrir landsliðið fyrir fimm árum síðan.
Það var því tilfinningaþrungin stund fyrir leikmanninn er hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi sænska landsliðsins í dag. Fáir hefðu átt von á því að hinn 39 ára gamli Zlatan Ibrahimovic, ætti eftir að spila annan leik fyrir sænska landsliðið.
Frammistaða Zlatan með AC Milan á tímabilinu hefur vakið verðskuldaða athygli og hann ákvað að taka fram landsliðsskóna að nýju til að hjálpa sænska landsliðinu í komandi leikjum.
„Að spila með landsliðinu er það stærsta sem maður gerir sem knattspyrnumaður. Ég fylgdist með sænska landsliðinu af hliðarlínunni síðustu ár og hugsaði alltaf með mér að ég gæti hjálpað þeim, ég gæti gert eitthvað,“ sagði Zlatan á blaðamannafundi.
Hann er hungraður í að ná árangri með landsliðinu.
„Ég hef nú fengið annað tækifæri á að spila fyrir landið mitt og ég mun gera það stoltur, en það er ekki það eina. Það hljómar kannski eins og ég sé bara ánægður með að vera hér en ég er kominn hingað til að ná úrslitum fyrir þjálfarann, liðsfélaga mína og Svíþjóð,“ sagði Zlatan.
Zlatan brast í grát á blaðamannafundinum er hann lýsti því hvernig sonur sinn, Vincent (12 ára), hefði tekið því að pabbi sinn væri að fara í burtu í landsliðsverkefni.
„Vincent grét þegar að ég fór frá honum en nú er allt í lagi,“ sagði Zlatan Ibrahimovic, leikmaður AC Milan og sænska landsliðsins.
Zlatan lagði landsliðsskóna á hilluna eftir Evrópumótið í Frakklandi 2016. Hann hefur leikið 116 landsleiki og skorað í þeim 62 mörk. Hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu sænska landsliðsins.
Zlatan Ibrahimovic was visibly emotional when asked about his family’s reaction to his return to the national team 🇸🇪 pic.twitter.com/5Z3u4wkGJ8
— beIN SPORTS USA (@beINSPORTSUSA) March 22, 2021