Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins, mun ekki taka þátt í leikjum íslenska liðsins í næstu þremur leikjum sem leiknir verða í lok mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Um persónulega ástæðu er að ræða fyrir því að Gylfi dregur sig úr landsliðshópnum en hann á von á sínu fyrsta barni á næstunni.
Ljóst er að um mikið áfall er að ræða fyrir íslenska liðið en Gylfi er lykilmaður í landsliðinu.
Tilkynningu KSÍ má lesa hér fyrir neðan.
Ekki er fyrirhugað að kalla inn leikmann í stað Gylfa. Fyrir þessa tilkynningu hafði Björn Bergmann Sigurðarsson, leikmaður norska liðsins Molde, dregið sig úr hópnum.
Ísland leikur þrjá útileiki í næsta landsliðsverkefni. Fyrst á móti Þýskalandi þann 25. mars, Armeníu þann 29. mars og Liechtenstein þann 31. mars.
Af persónulegum ástæðum verður Gylfi Þór Sigurðsson ekki með A landsliði karla í leikjunum þremur í undankeppni HM 2022 í mars. Gylfi og eiginkona hans eiga von á sínu fyrsta barni á næstunni. pic.twitter.com/AR2vbNlBj9
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) March 21, 2021