Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United er vongóður um að framherji liðsins, Edinson Cavani, framlengi samning sinn í Manchesterborg en núverandi samningur leikmannsins við félagið rennur út eftir tímabilið.
Faðir kappans, greindi frá því í fjölmiðlum um daginn, að Cavani væri ósáttur hjá Manchester United og viðræður væru hafnar við argentínska liðið Boca Juniors um að ganga frá samningum við Cavani.
Solskjær er hins vegar bjartsýnn á að halda kappanum sem hefur átt fína innkomu hjá Manchester United.
„Við erum að tala við Edinson. Hann er háklassa framherji og nú bíðum við bara og sjáum til hvað hann gerir. Við höfum átt góðar samræður við hann,“ sagði Solskjær fyrir leik Manchester United gegn Leicester í enska bikarnum.