16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar lauk í kvöld með fjórum leikjum. Manchester United er komið áfram í 8-liða úrslit eftir sigur á AC Milan og Unai Emery, knattspyrnustjóri Villarreal gæti mætt sínum gömlu lærisveinum í Arsenal í 8-liða úrslitum. Lestu allt um úrslit kvöldsins hér fyrir neðan.
AC Milan tók á móti Manchester United í stórleik kvöldsins. Leikið var á San Siro í Mílanó en fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli. Manchester United reyndist sterkari aðilinn í kvöld. Paul Pogba tryggði liðinu farseðilinn í 8-liða úrslit með eina marki leiksins á 49. mínútu. Manchester United fór því með 2-1 sigur af hólmi úr einvíginu.
Á Estadio de la Cerámica í Villarreal tóku heimamenn á móti Dynamo Kyiv. Fyrri leik liðanna lauk með 2-0 sigri Villarreal en það sama var upp á teningnum í kvöld. Mörk frá Gerard Moreno á 13. og 36. mínútu tryggðu heimamönnum samanlagðan 4-0 sigur í einvíginu og sæti í 8-liða úrslitum.
Young Boys tók á móti hollenska liðinu Ajax á Stadion Wankdorf í Bern. Fyrri leik liðanna lauk með 3-0 sigri Ajax en leikur kvöldsins endaði með 2-0 sigri Ajax eftir mörk frá Neres og Dusan Tadic á 21. og 49. mínútu. Ajax því komið áfram í næstu umferð með samanlagðan 5-0 sigur úr einvíginu.
Lærisveinar Steven Gerrard í Rangers tóku á móti Slavía Prag á Ibrox vellinum í Glasgow. Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli en Slavia Prag reyndist sterkari aðilinn í kvöld. Mörk frá Olayinka og Stanciu á 14. og 74. mínútu tryggðu liðinu samanlagðan 3-1 sigur í einvíginu og sæti í 8-liða úrslitum. Rangers misst tvo menn af velli með rautt spjald í kvöld, Kemar Roofe var rekinn af velli á 62. mínútu og rúmum tíu mínútum síðar fékk Leon Balogun reisupassann.
Dregið verður í 8-liða úrslit og undanúrslit á morgun. Liðin sem hafa tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum: Ajax, Villarreal, Manchester United, Slavia Prag, Arsenal, Granada, Dinamo Zagreb og Roma.
Átta liða úrslit keppninnar fara fram þann 8. apríl og 15. apríl næstkomandi.
Young Boys 0 – 2 Ajax (Samanlagt 5-0 sigur Ajax)
0-1 David Neres (’21)
0-2 Dusan Tadic (’49, víti)
Villarreal 2 – 0 Dynamo Kyiv (Samanlagt 4-0 sigur Villarreal)
1-0 Gerard Moreno (’13)
2-0 Gerard Moreno (’36)
Milan 0 – 1 Manchester United (Samanlagt 2-1 sigur Manchester United)
0-1 Paul Pogba (’49)
Rangers 0 – 2 Sparta Prag (Samanlagt 3-1 sigur Sparta Prag)
0-1 Peter Olayinka (’14)
0-2 Stanciu (’74)
Rautt Spjald: Kemar Roofe, Rangers (’62), Leon Balogun, Rangers (’73)