DV hefur fengið ábendingar um mikinn umferðarhnút á Kjalarnesi, nálægt Blikadalsá. Þær upplýsingar fengust hjá Guðbrandi Sigurðssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá Umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að tilkynning hefði borist kl. 15:30 um slys á Vesturlandsvegi á móts við Dalsmynni.
Sjúkrabíll og lögreglubíll eru á staðnum og hefur vettvangur verið aflokaður. Að sögn Guðbrands eru mögulega þrír slasaðir á en hann gat ekki staðfest það. Lögreglustöð 4 er með bíl á vettvangi en ekki hefur náðst samband við lögreglumann á þeirri stöð.
DV náði sambandi við Elínu Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjón á Lögreglustöð 4. Sagðist hún ekki hafa frekari upplýsingar um málið þar sem hún væri ekki sjálf á vettvangi. Gat hún ekki staðfest fjölda slasaðra. Von er á frekari tíðindum síðar í dag.
Uppfært kl. 16:50
Að sögn Elínar Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Lögreglustöð 4, lítur út fyrir að þrír hafi slasast í árekstri á Vesturlandsvegi sem varð upp úr kl. 15 í dag. Að líkindum eru áverkar þeirra ekki alvarlegir. Það eru þó ekki staðfest. Lögregla og sjúkralið eru enn að störfum á vettvangi. Frekari upplýsinga er að vænta á sjötta tímanum. Elín gat ekki svarað til um hvort búið væri að greiða úr umferðarhnút á Vesturlandsvegi sem myndaðist vegna slyssins.
Uppfærst kl. 17:20
Elín gat staðfest að þrír hefðu slasast í árekstrinum en enginn þeirra alvarlega, að virðist. Enginn var fluttur á slysadeild en sjúkrabíll kom á vettvang. Um var að ræða árekstur tveggja bíla og lentu ekki fleiri bílar í árekstrinum þrátt fyrir mikla umferð um Vesturlandsveginn en mikill umferðarhnútur varð í kjölfar óhappsins.