Í Héraðsdómi Reykjaness í morgun var kveðinn upp dómur yfir manni sem sakaður er um að hafa unnið skemmdarverk á bíl síðastliðið sumar. Bílnum var lagt í bílastæði við Reykjanesbraut við Grindavíkurafleggjara.
Maðurinn braut báðar fremri hliðarrúður bílsins, gerði sprungu í framrúðuna, braut hægri hliðarspegilinn og dældaði bílinn. Í dómnum er tjónið sagt vera upp á rúmlega 800 þúsund krónur.
Þá er maðurinn sakaður um þjófnað úr bílnum, eða öðrum bíl á sama stað, en hann tók þaðan golfbúnað, skó og fatnað að verðmæti samtals 410 þúsund krónur.
Loks var maðurinn ákærður fyrir að hafa haft dálítið af marijúana í fórum sínum.
Maðurinn játaði öll brotin skýlaust. Hann hefur langan sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2008.
Hann var dæmdur í 30 daga fangelsi og þarf að greiða verjanda sínum 186 þúsund krónur.