Einn greindist innanlands utan sóttkvíar af Covid-19 í gær. Er þetta fyrsta smitið utan sóttkvíar í nokkra daga. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi dagsins veldur smitið nokkrum áhyggjum um að samfélagslegt smit sé í gangi. Unnið er að smitrakningu og raðgreiningu út frá þessu smiti og en niðurstöður liggja ekki fyrir. Er verið að setja fólk í kringum þennan einstakling í sóttkví og skimanir.
Þrátt fyrir þetta vonast Þórólfur eftir því að sú hópsýking sem varð hér á landi fyrir tæpum tveimur vikum sé yfirstaðin en nánast engin smit hafa greinst utan sóttkvíar undanfarið.
Töluvert hefur hins vegar verið um smit á landamærum, þó greindist bara einn á landamærum í gær. Flestir sem greinast á landamærum eru með breska afbrigði veirunnar.
Varðandi væntanlegar tilslakanir á landamærum í vor gagnvart bólusettum ferðamönnum sagðist Þórólfur vilja leggja áherslu á að frá 15. janúar hafi verið í gildi reglugerð um að fólk með gild bólusetningavottorð sé undanþegið skimunum. Sama hefur gilt um farþega utan Schengen-svæðisins sem geta framvísað bólusetningavottorði frá WHO. Þórólfur segir að undanfarið hafi birst fréttir frá Ísrael sem bendi til þess að áhættan af smiti frá bólusettu fólki sé lítil. Þórólfur bendir einnig á að frá 10. desember hafi vottorð um fyrri sýkingu verið tekin gild frá fólki innan EES-svæðisins og þetta hafi gefist vel.
Þórólfur sagði enn fremur að beðið væri eftir mati frá Lyfjastofnun Evrópu á bóluefninu AstraZeneca en tiltelli hafa komið upp um að einstaklingar bólusettir með efninu hafi fengið blóðtappa. Þó er talið ólíklegt að um orsakatengsl sé að ráða. Þórólfur býst við niðurstöðu í dag. Forsvarsmenn Lyfjastofnunarinnar hafi lýst því yfir að þeir telji ekki neitt samhengi milli blæðinga og bóluefnisins. Þórólfur telur líklegt að Lyfjastofnun Evrópu mæli með notkun bóluefnsins og ef svo verður verði haldið áfram að nota þetta bóluefni.