Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið Albananum Armando Bequirai að bana laugardagskvöldið 13. febrúar var í gær úrskurðaður í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmaður hans staðfestir við DV að úrskurðurinn verði kærður til Landsréttar, sem mun skila úrskurði nokkrum dögum síðar.
Maðurinn var handtekinn þriðjudaginn 16. febrúar. Hann hefur því þegar setið í fjögurra vikna gæsluvarðhaldi. Hann mun að óbreyttu sitja í gæsluvarðhaldi til 14. apríl og verða vikurnar þá orðnar um átta. Samkvæmt lögum er ekki hægt að halda mönnum í gæsluvarðhaldi lengur en í 12 vikur án þess að gefa út ákæru. Þegar gæsluvarðhald mannsins rennur út um miðjan apríl verður því klukkan nokkuð farin að ganga á lögregluna og þrýstingur á að afla sönnunargagna orðinn mikill.
Maðurinn er grunaður um að hafa skotið Armando níu skotum úr skammbyssu með hljóðdeyfi. Lögregla hefur hingað til neitað að upplýsa um hvort morðvopnið hafi fundist eða ekki.