Það stóð ekki á svörum hjá Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, þegar hann var spurður að því hvaða leikmaður væri sá besti sem hann hefði þjálfað á sínum knattspyrnustjóraferli.
Framherjinn Robert Lewandowski er að mati Klopp sá besti sem hann hefur þjálfað. Þessu greindi Klopp frá í viðtali við blaðamann Bild.
Klopp var knattspyrnustjóri Dortmund á árunum 2008-2015. Árið 2010 gekk Robert Lewandowski til liðs við Dortmund, hann átti eftir að spla 187 leiki fyrir félagið og skora fyrir það 103 mörk.
„Robert Lewandowski er besti leikmaður sem ég hef þjálfað. Það yrði ekki sanngjarnt að nefna neinn annan leikmann en Lewy. Það sem hann hefur gert við sinn feril, hvernig hann lagði alla þessa vinnu á sig til þess að verða sá leikmaður sem hann er í dag, er sérstakt,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Lewandowski er nú leikmaður Bayern Munchen en það er ljóst að Jurgen Klopp er mjög hrifinn af leikmanninum.
„Lewandowski hefur tekið hvert einasta skref sem hann hefur þurft að taka til þess að verða sú markavél sem hann er í dag. Hann veit alveg nákvæmlega hvað hann þarf að gera í hverri einustu stöðu, hann er algjör vél,“ sagði Jurgen Klopp um Robert Lewandowski.