Liverpool sitja í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í augnablikinu, 25 stigum frá toppliði Manchester City. Gengi liðsins hefur verið brösulegt á tímabilinu eftir frábært tímabil í fyrra þar sem þeir unnu deildina nokkuð örugglega.
Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, var í viðtali hjá Sport BILD á dögunum þar sem hann var spurður hvað það þýddi fyrir hann að missa af Meistaradeildarsæti en sjötta sæti skilar ekki Meistaradeildarsæti, en mögulega Evrópudeildarsæti.
„Það væri mikið tap fjárhagslega en annars ekki mikið. Ég geri mér grein fyrir því að í nánast öllum fótboltaliðum í heiminum myndi fólk efast um stöðu þeirra eins og hún er núna hjá okkur. En við erum öðruvísi, eigendurnir, leikmennirnir, enginn efast um getu okkar. Við höfum samþykkt ástandið og ætlum að koma okkur úr því,“ segir Klopp en hann er ekki bjartsýnn á að Liverpool nái að lyfta sér upp í fjórða sæti deildarinnar, þrátt fyrir að vera aðeins fimm stigum frá Chelsea sem sitja þar.
„Mér finnst gaman að vera bjartsýnn en eins og staðan í deildinni er núna er það nánast ómögulegt. Manchester-liðin eru langt á undan okkur, Gareth Bale er að vakna til lífs hjá Tottenham og Chelsea eru að gera vel.“