Á þriðjudaginn tilkynntu frönsk stjórnvöld um 29.975 ný smit en það eru 4,5% fleiri smit en á þriðjudag í síðustu viku og mesta aukning í sex vikur.
Þetta veldur miklu álagi á sjúkrahús landsins og sumir af helstu sérfræðingum landsins í heilbrigðismálum tala nú ákaft fyrir að sóttvarnaaðgerðir verði hertar. Castex og Emmanuel Macron, forseti, segja báðir að lausnin sé að bólusetja en Frakkar eru, eins og svo margar aðrar Evrópuþjóðir, ekki komnir svo langt í að bólusetja fólk eins og til dæmis Bretar og Bandaríkjamenn.
Um átta prósent landsmanna hafa fengið fyrsta skammt af bóluefni gegn kórónuveirunni og fjögur prósent tvo skammta.
Breska afbrigðið, B117, er nú það afbrigði veirunnar sem er útbreiddast í Frakklandi. Það er meira smitandi en önnur afbrigði og er einmitt það afbrigði sem glímt hefur verið við hér á landi að undanförnu.
Á sjúkrahúsi í Lannion í Bretagne uppgötvuðu sérfræðingar nýlega nýtt afbrigði. Heilbrigðisyfirvöld skýrðu frá þessu í gær. Það virðist vera erfiðara að greina það en önnur afbrigði en það fannst eftir fjöldi fólks fann fyrir einkennum kórónuveirusmits en pcr-sýni gáfu neikvæða niðurstöðu. Ekki er enn ljóst hvort þetta afbrigði er meira smitandi en önnur afbrigði eða hvort það veldur alvarlegri veikindum.