Í morgun var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn manni fæddum árið 1993, fyrir ofsafengna líkamsárás á veitinga- og skemmtistaðnum Sólon í Bankastræti, fyrir rétt rúmlega ári síðan.
Maðurinn er sakaður um að hafa veist að manni sem fæddur er árið 1999, skallað hann, tekið hann kverkataki og slegið hann í andlit með krepptum hnefa nokkrum sinnum, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á höfði, roða í augum og eymslu í hægri kjálka.
DV hefur ákæruna í málinu undir höndum. Þar segir að meintur þolandi geri einkaréttarkröfu upp á eina milljón króna í skaðabætur vegna árásarinnar.
Í ákærunni er maðurinn einnig sakaður um annað brot sem á að hafa átt sér stað mánuði áður. Maðurinn virðist þá hafa verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli og er honum gefið að sök að hafa ítrekað hótað lífláti og líkamsmeiðingum lögreglumönnum í lögreglubíl sem var á leiðinni frá flugstöðinni að lögreglustöðinni við Hringbraut 130 í Keflavík. Ekki kemur fram í ákærunni hvers vegna hann var handtekinn, eða hvers vegna hann var í lögreglubílnum.
Auk kröfu um refsingar er maðurinn krafinn um að greiða allan málskostnað.