Fólk getur andað rólega því engar líkur eru á að loftsteinninn lendi í árekstri við jörðina því hann fer fram hjá í um tveggja milljóna kílómetra fjarlægð sem er rúmlega fimm sinnum lengri vegalengd en til tunglsins. Þetta er þó ekki meiri fjarlægð en svo að hann fellur undir flokk þeirra loftsteina sem geta hugsanlega ógnað jörðinni.
Loftsteinninn uppgötvaðist fyrir 20 árum og fékk þá hið þjála nafn 2001 FO32. Hann er talinn vera um 900 metrar í þvermál og þýtur fram hjá jörðinni á um 124.000 km/klst. en það er meiri hraði en flestir þeir loftsteinar, sem fara fram hjá jörðinni, ná.
Ef veður leyfir verður hægt að sjá hann með millistórum sjónaukum frá suðurhveli jarðar og suðurhluta norðurhvelsins.