Hildur var tilnefnd til verðlauna fyrir verkið „Bathroom Dance“ í öðrum flokki en sigraði ekki í honum. Hún ávarpaði hátíðina í gegnum fjarfundabúnað og sagðist vera þakklát fyrir verðlaunin. Engir gestir voru á hátíðinni í ár vegna heimsfaraldursins.
Hildur fékk einnig Grammyverðlaun á síðasta ári, þá fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl. Daníel Bjarnason og Sinfóníuhljómsveit Íslands voru tilnefnd fyrir besta tónlistarflutning hljómsveitar fyrir flutning og hljómsveitarstjórn á plötunni Concurrence en sigruðu ekki.
Blue Ivy Carter, níu ára dóttir Beyoncé og Jay Z, fetaði í fótspor foreldra sinna en hún fékk sín fyrstu Grammyverðlaun í nótt og móðir hennar bætti í veglegt safn sitt. Blue Ive Carter varð næst yngsti verðlaunahafi sögunnar þegar hún fékk verðlaun fyrir besta tónlistarmyndbandið, Brown Skin Girl. Hún deilir verðlaununum með móður sinni sem sló met þegar hún fékk sín fjórðu verðlaun í nótt en þá var hún samtals komin upp í 28 Grammyverðlaun í gegnum tíðina og hefur engin kona hlotið fleiri Grammyverðlaun. „Sem listakona tel ég að það sé starf mitt að endurspegla þann tíma sem við lifum á og þetta hefur verið erfiður tími,“ sagði hún þegar hún tók við verðlaunum fyrir lagið „Black Parade“.
Taylor Swift komst einnig í sögubækurnar í nótt þegar hún fékk verðlaun fyrir bestu plötu ársins, Folklore, sem hún gaf út í júlí á síðasta ár. Hún varð þar með fyrsta konan í sögu verðlaunanna til að sigra þrisvar í þessum flokki en hún sigraði einnig með plötunum „1989“ og „Fearless“.
Meðal helstu verðlauna kvöldsins voru:
Besti nýi listamaðurinn – Megan Thee Stallion
Besta kántríplatan – Miranda Lambert fyrir „Wildcard“
Besta lag ársins – H.E.R. – „I Can‘t Breathe“
Besta rapplagið – Megan Thee Stallion og Beyoncé fyrir „Savage“
Besti R & B flutningurinn – Beyoncé fyrir „Black Parade“
Plata ársins – Taylor Swift fyrir „Folklore“
Besta tónlistarmyndbandið – Beyoncé og Blue Ivy Carter fyrir „Brown Skin Girl“
Besta rokkplatan – The Strokes fyrir „The New Abnormal“