Tvö lið hafa nú þegar gert tilboð í norska framherjann Erling Håland samkvæmt miðlinum Mundo Deportivo. Hann er metinn á í kringum 150 milljónir punda en árið 2022 mun klásúla í samningi hans við Dortmund virkjast sem gerir honum kleift að hefja viðræður við lið sem bjóða 65 milljónir punda eða meira í hann.
Samt sem áður vilja lið fá hann til sín strax í sumar en bæði Manchester City og Chelsea eiga að hafa gert tilboð í kappann. Håland varð á dögunum fljótasti leikmaðurinn í sögunni til að skora 20 meistaradeildarmörk. Það gerði hann í aðeins 14 leikjum. Hann hefur skorað 31 mark í 29 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili.
Manchester United vilja enn þá fá norska framherjann en Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Manchester United, og Håland þekkjast ágætlega eftir að Solskjær þjálfaði hann hjá Molde á sínum tíma.