Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, lokaði ekki á þann möguleika að Cristiano Ronaldo, gæti snúið aftur til síns gamla félags í Madrídarborg, er hann var spurður út í leikmanninn á blaðamannafundi.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ronaldo hjá ítalska félaginu Juventus eftir að félagið féll úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir tap gegn Porto.
Talið er að Juventus vilji losa sig við leikmanninn sem er á ofurlaunum hjá félaginu.
Ronaldo er mikils metin hjá Real Madrid eftir níu farsæl ár í Madrídarborg. Þar skoraði hann 450 mörk í 438 leikjum og vann til fjölda titla.
„Þið vitið hversu mikils metinn, Cristiano Ronaldo er hjá Real Madrid. Þið vitið hversu mikla ástúð við berum til hans. Það sem hann gerði hér var magnað,“ sagði Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid.
„Á þessari stundu er hann leikmaður Juventus og hann hefur gert góða hluti þar. Ég get ekki tjáð mig um aðra hluti en það, bara að hann sé leikmaður Juventus og við verðum að virða það,“ sagði Zidane við blaðamenn.