Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, vill að sínir menn horfi upp til Meistaradeildarsætis frekar en niður til Arsenal en liðin mætast í Lundúnaslag á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni.
Tottenham er sem stendur í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 45 stig, fimm stigum á eftir Chelsea sem situr í 4. sæti sem gefur sæti í Meistaradeild Evrópu.
„Ég horfi upp, ég horfi ekki niður. Ef Arsenal væri sjö stigum á undan okkur þá mundi ég horfa upp á þá en af því við erum með sjö stigum meira en þeir þá horfi ég ekki niður,“ sagði Mourinho á fréttamannafundi.
Tottenham hefur unnið þrjá leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og er á fínu skriði í ensku úrvalsdeildinni.
„Okkur finnst við vera betri en staða okkar í töflunni sýnir, við viljum bæta hana og til þess þurfum við stig,“ sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham.
Leikur Arsenal og Tottenham fer fram á Emirates Stadium á sunnudaginn og hefst hann klukkan 16:30.