„Þetta er ótrúlegur léttir. Það var svo mikið af sönnunargögnum þannig að ég var bjartsýnn en ég var samt búinn að byggja um mig upp gegn því að verða enn einu sinni fyrir vonbrigðum og þurfa að áfrýja,“ segir Hjalti „Úrsus“ Árnason, faðir Árna Gils Hjaltasonar, sem fyrr í dag var í Landsrétti sýknaður af ákæru um líkamsárás og morðtilraun.
Árni Gils hefur tvisvar verið sakfelldur af sömu ákæru í héraði. Hæstiréttur ógilti dóminnn yfir honum og vísaði aftur í hérað en héraðsdómur kvað þá upp samhljóða sektardóm yfir honum aftur.
„Hann hefur setið 277 daga í varðhaldi og í yfir fjögur ár hefur hann haft þetta hangandi yfir sér og líf hans gjöreyðilagt,“ segir Hjalti enn fremur í samtali við DV. Hjalti hefur ávallt trúað á sakleysi sonar síns og lengi barist fyrir réttlæti honum til handa þar sem hann taldi dóminn yfir honum stangast á við sönnunargögn. „Ég er bara hrikalega sáttur,“ segir Hjalti. Núna taki það verkefni við hjá Árna Gils að byggja líf sitt upp aftur.
Atvikið átti sér stað á bílastæði í Breiðholti árið 2017. Þar kom til átaka á milli Árna Gils og annars manns. Árni var sakaður um að hafa stungið manninn með hnífi í höfuðið. Var hann ákærður og sakfelldur fyrir bæði líkamsárás og morðtilraun.
„Það er verið að fremja á mér réttarmorð og öllum er sama. Sekt mín virðist hafa verið ákveðin á staðnum og ég fæ ekki sanngjarna málsmeðferð. Ég er dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að verjast hnífaárás fíkils sem ég hef aldrei séð áður. Aðalsönnunargagnið finnst ekki, framburður vitna breytist eftir hentisemi og röksemdir dómsins ganga ekki upp,” sagði Árni Gils sjálfur í viðtali við DV árið 2017.
Í framburði sínum fyrir dómi sagði Árni að meintur brotaþoli hefði ráðist á sig með hnífi, honum hafi tekist að verjast manninum og ná af honum hnífnum og henda honum í burtu. Í texta dóms Landsréttar í dag sem DV hefur undir höndum kemur fram að framburður Árna Gils í málinu hafi ávallt verið stöðugur og ekkert hafi komið fram í málinu sem sé sérstaklega til þess fallið að draga úr trúverðugleika hans.
Brotaþoli hélt því fram að Árni Gils hefði stungið sig. Landsréttur bendir hins vegar á að sá framburður sé ekki studdur framburði vitna sem voru á vettvangi og gáfu skýrslu fyrir dómi. Ekkert þeirra sá Árna Gils stinga manninn.
Þá telur Landsréttur að nokkuð skorti upp á gæði þeirra sönnunargagna sem stuðst var við í héraðsdómi. Þannig séu engar ljósmyndir til af áverkum á brotaþola, árásarvopnið hafi ekki fundist og læknir sem gaf skýrslu um ástand brotaþola hafi ekki skoðað hann sjálfan heldur eingöngu sneiðmyndir af honum.
Var það mat Landsréttar að ákæruvaldið hefði ekki axlað þá sönnunarbyrði í málinu sem á því hvílir.
Var Árni Gils því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.