Danska knattspyrnustjarnan Thomas Gravesen lagði skóna á hilluna í byrjun árs 2009 eftir að hafa leikið með stórliðum á borð við Celtic, Everton og Real Madrid. Gravesen vakti oft athygli á sínum tíma, til að mynda vegna ástarsambands við klámstjörnuna Kira Eggers. Gravesen var þó ekki mikið í sviðsljósinu eftir lok ferilsins en nú, þó nokkrum árum síðar, hefur hann skotið upp kollinum á ný.
Gravesen er nefnilega orðinn ansi ríkur en ríkidæmi hans kom ekki bara vegna knattspyrnunnar. Gravesen skipti nefnilega knattspyrnuferlinum út fyrir pókerferil en hann hefur grætt fleiri milljarða í gegnum fjárhættuspilið vinsæla. Hann er til að mynda sagður hafa grætt 100 milljónir dollara, tæpa 13 milljarða í íslenskum krónum, bara í gegnum pókersigra.
Gravesen bjó í Las Vegas í átta ár en hann hefur nú snúið aftur á heimaslóðir í Danmörku. Í frétt SPORTbible um Gravesen kemur fram að hann hafi lagt mikið undir í pókernum í Bandaríkjunum. Hann er til dæmis sagður hafa tapað 54 milljónum dollara, um 7 milljörðum í íslenskum krónum, í einum leik en hann vann það þó til baka og meira til.
„Hann byrjaði bara að skjóta fólk“
Svo virðist vera sem Gravesen sé afar stór karakter en James McFadden, fyrrum liðsfélagi hans hjá Everton, deildi mögnuðum minningum af tíma sínum með Gravesen í viðtali árið 2018. „Hann var brjálaður,“ sagði McFadden í viðtali við Open Goal. „Hann var bara öðruvísi gaur… tja, maður reyndi að forðast hann.“
McFadden sagði til að mynda frá mögnuðu augnabliki þegar Gravesen mætti með flugelda á æfingasvæðið. „Hann byrjaði bara að skjóta fólk. Hann kom með flugeldana á völlinn og sjúkraþjálfarinn var með herbergi við hlið vallarins. Sjúkraþjálfarinn var að hlaupa með meiddu leikmönnunum þegar Gravesen kemur út með stóran flugeld og skýtur beint í áttina að honum.“