TV2 skýrir frá þessu. „Margir láta stjórnast af þeim væntingum sem þeir hafa. Þeir vilja fá það til baka sem þeir hafa misst. En það er ýmislegt sem bendir til að við verðum að sýna þolinmæði áfram,“ sagði hann.
Aðspurður sagðist hann telja að hvað varðar handþvott, bæði með spritti og vatni og sápu, þá sé ekki auðvelt að hætta honum. Sálfræðilega séð sé þetta eitthvað sem muni vara lengi. Hann telur að þegar heimsfaraldrinum lýkur muni fólk halda þessu áfram í tvö til þrjú ár.
Hvað varðar faðmlög og handabönd þá telur hann að langur tími muni líða þar til fólk fer að faðmast og heilsast með handabandi á nýjan leik. Þetta sé eitt af því sem hefur verið talið ein helsta smitleiðin í faraldrinum og því muni líða langur tími þar til fólki finnst í lagi að faðma fólk eða heilsa því með handabandi. En þetta þýðir ekki að fólk muni ekki hella sér út í mannleg samskipti um leið og hægt verður, það mun bara fara hægt í sakirnar hvað varðar faðmlög og handabönd.
Hvað varðar ferðalög sagði Dalen að þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi nær algjörlega lokað á ferðalög til útlanda þá hafi hann ekki lokað á þörf fólks fyrir upplifanir og það hafi fundið sér nýjar leiðir í þeim efnum og muni halda því áfram því hann telur að tvö til þrjú ár líði þar til fólk hefur tekið upp fyrri ferðavenjur.