Kári Árnason, landsliðsmaður og leikmaður Víkings Reykjavíkur, var gestur í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf. Þar fór Kári ásamt þáttastjórnendunum Huga Halldórssyni og Gunnari Sigurðssyni, yfir víðan völl.
Kári á að baki 87 leiki fyrir íslenska landsliðið, hann hefur skorað 6 mörk í þeim leikjum og hefur farið með liðinu á Evrópumeistaramótið árið 2016 og Heimsmeistaramótið árið 2018.
Hann segist ekki vera búinn að loka á þann möguleika á að spila aftur með landsliðinu. En næsta landsliðsverkefni eru þrír leikir undir lok mars.
„Ef þeir velja mig, þá velja þeir mig. Ég hef alveg átt samtal við Arnar (landsliðsþjálfara) og Eið en þetta er undir þeim komið. Ef að þeir velja mig ekki þá er það bara þannig og enginn biturleiki gagnvart þeirri ákvörðun. Þetta er bara eitthvað sem þeir verða að ákveða,“ sagði Kári Árnason.