Liverpool er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir sannfærand 2-0 sigur á Red Bull Leipzig í gær. Liverpool hafði unnið fyrri leikinn með sama mun og fer því áfram samanlagt 4-0.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Liverpool fékk góð færi til þess að skora en tókst ekki að nýta færin. Í síðari hálfleik voru það Mo Salah og Sadio Mane sem skoruðu mörkin. Salah tók færi sitt einkar vel á 71 mínútu leiksins og Mane var á ferðinni fjórum mínútum síðar. Liverpool sýndi góða takta í leiknum, eitthvað sem hefur vantað síðustu vikur í deildinni heima fyrir.
Í fyrsta sinn um langt skeið var Fabinho mættur á miðsvæðið, staðan þar sem honum líður best. Í vetur hefur Fabinho leyst stöðu miðvarðar í vetur en Liverpool hefur saknað hans á miðjunni.
„Það er svo ljúft að horfa á hann þarna aftur,“ sagði Michael Owen fyrrum framherji Liverpool um stöðu mála eftir leikinn.
„Þegar Fabinho er á svæðinu þá líður þér eins og það sé öryggi,“ sagði Owen en varnarleikur Liverpool hefur verið í hálfgerðum molum án Virgil van Dijk.
„Hann er allt sem þú vilt hafa í varnarsinnuðum miðjumanni sínum, hann ver miðverðina svo vel sem eru veiki hlekkur liðsins.“