Liverpool er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir sannfærand 2-0 sigur á Red Bull Leipzig í kvöld. Liverpool hafði unnið fyrri leikinn með sama mun og fer því áfram samanlagt 4-0.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Liverpool fékk góð færi til þess að skora en tókst ekki að nýta færin. Í síðari hálfleik voru það Mo Salah og Sadio Mane sem skoruðu mörkin.
Salah tók færi sitt einkar vel á 71 mínútu leiksins og Mane var á ferðinni fjórum mínútum síðar. Liverpool sýndi góða takta í leiknum, eitthvað sem hefur vantað síðustu vikur í deildinni heima fyrir.
PSG er svo komið áfram eftir 1-1 jafntefli við Barcelona í kvöld. Fyrri leikurinn fór fram í Barcelona þar sem PSG vann 4-1 sannfærandi sigur.
Kylian Mbappe kom PSG yfir á 30 mínútu en nokkrum mínútum síðar jafnaði Lionel Messi með frábæru marki. Messi misnotaði svo vítaspyrnu í uppbótartíma síðari hálfleiks og þar við sat. Liverpool og PSG eru komin í pottinn í átta liða úrslitum ásamt Porto og Borussia Dortmund.