Síbrotamaður var í morgun dæmdur í eins árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þrjú brot og rof á skilorði. Maðurinn, sem játaði brot sín, á að baki brotaferil allt aftur til ársins 2006.
Þann 24. febrúar árið 2020 var maðurinn greinilega í ránsleiðangri. Hann braust inn í húsið Gljúfrastein í Mosfellsbæ, fór inn um glugga. Þetta hús lét Nóbelsskáldið Halldór Laxness byggja og bjó þar. Maðurinn náði ekki að stela neinu úr húsi skáldsins því öryggiskerfi fór í gang og hann flúði af vettvangi.
Sama dag fór hinn ákærði með öðrum manni inn í bílskúr á Kjalarnesi og stal þaðan Skyway Luggage ferðatösku, skóm, fótahlífum, bakhlíf og hlífðargalla, allt að óþekktu verðmæti.
Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa ekið án réttinda og undir áhrifum slævandi lyfja. Það atvik átti sér stað sex dögum fyrir innbrotin.
Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í 12 mánaða fangelsi. Refsingin er ekki skilorðsbundin. Maðurinn var dæmdur til að greiða um 270 þúsund krónur í málskostnað.