Engin lög gilda um skráningu hagsmuna kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu, líkt og á við um kjörna fulltrúa á Alþingi heldur er það á ábyrgð okkar sveitarstjórnarfulltrúa sjálfra að meta eigin hæfi við meðferð mála. Eins og við þekkjum fjölmörg dæmi um er það algeng tilhneiging að vanmeta eigin hlutdrægni og oft treystir fólk sér til að fjalla á hlutlausan hátt um mál þrátt fyrir að tengsl séu til staðar.
Reglur um hagsmunaskráningu hafa verið í gildi fyrir alþingismenn frá árinu 2009. Sveitarstjórnum er í sjálfsvald sett hvort þær setji sér slíkar reglur en Reykjavíkurborg reið á vaðið haustið 2009 og fleiri sveitarfélög hafa síðan þá fylgt á eftir.
Auk þess að fjalla um skráningu launaðra starfa, stjórnarsetu og gjafa, kveða reglurnar nú á um að bæjarfulltrúar greini frá því ef þeir eiga fasteignir innan sveitarfélagsins (utan íbúðarhúsnæðis til eigin nota) óháð því hvort þær séu tekjuskapandi eður ei, og ef þeir eiga að minnsta kosti fjórðungshlut í félögum, fjármála- eða sjálfseignarstofnunum í atvinnurekstri. Einnig hvort þeir hafi fengið ívilnandi skilmálabreytingar á lánum síðastliðin fjögur ár, eða skuldir felldar niður, og að lokum hvort þeir hafi gert samkomulag við fyrrverandi eða verðandi vinnuveitanda sem er fjárhagslegs eðlis eða varðar ráðningu, jafnvel þótt ráðningin taki fyrst gildi eftir að viðkomandi hættir störfum í bæjarstjórn.
Með tilkomu skráningu hagsmuna bæjarbúa munu Kópavogsbúar nú geta nálgast upplýsingar um launuð störf og eignir kjörinna fulltrúa og tengsl þeirra við félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir.